Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fékk símanúmer hjá Nova sem þegar var í notkun

04.12.2022 - 10:53
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Nova braut persónuverndarlög þegar símafyrirtækið tilkynnti ekki viðskiptavini að símanúmeri hans hefði fyrir mistök verið úthlutað til annars viðskiptavinar. Þetta hafi verið öryggisbrestur enda hefði viðkomandi getað nálgast persónuupplýsingar þess sem var með símanúmerið.

Í kvörtun til Persónuverndar kom fram að viðskiptavinur hefði sótt um símanúmer hjá Nova og fengið úhlutað símanúmer sem þegar var í notkun.

Sá sem var með símanúmerið taldi að sá sem fékk númerið hans hefði með því getað lesið þau textaskilaboð sem kynnu að hafa borist og komist inn á þá vefi og snjallforrit sem nota símanúmer sem auðkenni.

Nova sagði í svari sínu til Persónuverndar að þetta hefðu verið mannleg mistök. Engar upplýsingar um textaskilaboð eða fyrri símtöl hefðu orðið aðgengilegar við flutning á símanúmerinu.  

Persónuvernd telur óumdeilt að sá sem fékk símanúmerið hafi verið gert kleift að nálgast persónuupplýsingar þess sem var með númerið.  Eðli þeirra geti verið umfangsmiklar og jafnvel innihaldið viðkvæmar persónuupplýsingar, meðal annars upplýsingar um kynhneigð. 

Það hafi því hvílt sérstök skylda á Nova að gera viðeigandi og skipulagslegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að svona geti gerst. 

Taldi Persónuvernd því að þetta hefði verið öryggisbrestur sem símafyrirtækinu hefði borið að tilkynna og það væri brot á persónuverndarlögum að gera það ekki.

Fær Nova frest til 21. desember til að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að svona nokkuð komi fyrir aftur.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV