VR slítur kjaraviðræðum

25.11.2022 - 09:08
Þing así 10 október 2022
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
VR hefur slitið kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, staðfesti þetta í samtali við RÚV í morgun. VR hefur verið í samfloti með Starfsgreinasambandinu í kjaraviðræðunum. Nú stendur yfir formannafundur aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins þar sem rætt er um stöðuna sem komin er upp í kjaraviðræðunum.

Vísir greindi fyrst frá því að VR hefði slitið viðræðum við SA. Kjaradeilunni var vísað til ríkissáttasemjara 14. nóvember. Viðræðurnar komust í uppnám þegar Seðlabankinn tilkynnti um stýrivaxtahækkun á miðvikudag.

Fréttastofa hefur ekki náð sambandi við Vilhjálm Birgisson, formann Starfsgreinasambandsins, í morgun. Fréttastofa náði tali af einum af formönnum aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins sem staðfesti að nú stæði yfir fundur þar sem rætt væri hvort slíta ætti viðræðum eða halda þeim áfram.

Einn forystumaður í verkalýðshreyfingunni sem fréttastofa ræddi við í morgun segir að allt hafi breyst við ákvörðun Seðlabankans um að hækka stýrivexti. Rétt fyrir tilkynningu Seðlabankans hafi verkalýðsforkólfinum þótt líklegra en ekki að ná mætti samkomulagi um skammtímasamning.

Ekkert fast í hendi á fundi með forsætisráðherra

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra bauð fulltrúum VR, Starfsgreinasambandsins, Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins á sinn fund í gær með fremur skömmum fyrirvara. Að fundi loknu var talið að líkur hefðu aukist á skammtímakjarasamningi. 

Vilhjálmur var spurður að fundi loknum hvort hann hefði breytt einhverju.

„Hann breytir náttúrlega bara því að það er ánægjulegt að heyra að stjórnvöld eru tilbúin til þess  að koma að því að liðka fyrir kjarasamningnum, við vissum það svo sem, en það er ekkert fast í hendi í þeim málum,“ sagði Vilhjálmur. Aðkoma ríkisstjórnarinnar hefði hins vegar ekki skýrst. „Nei, það var bara verið að fara yfir ýmsa þætti,“ sagði Vilhjálmur. 

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, var spurður um það hvort núna væri verið að skoða skammtímasamning.

„Við erum svo sem enn þá með alla valmöguleika á borðinu, en svona í ljósi þeirrar óvissu sem við búum við, í ljósi þeirrar verðbólgu og ytri aðstæðna þá hefur já, mikil áhersla verið lögð á skammtímasamning. Ég geri ráð fyrir að við munum ræða það áfram inn í daginn,“ sagði Halldór.

Iðnaðarmenn hafa ekki slitið viðræðum

Samflot iðnaðarmanna í kjaraviðræðum við SA hefur ekki slitið viðræðunum. Iðnaðarmenn og SA hafa verið á samningafundum hjá ríkissáttasemjara síðustu daga. Þeir ákváðu í gærkvöldi að hittast aftur á fundi í dag klukkan eitt.

Efling á í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Þeirri kjaradeilu hefur ekki verið vísað til ríkissáttasemjara. Aðspurð um áhrif stýrivaxtahækkunar Seðlabankans, segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, að kröfugerð félagsins standi. Þau vænti viðbragða SA við henni á næsta samningafundi sem ráðgerður er á mánudaginn.  

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 10.04.