Við skuldum írönskum stúlkum segir Þórdís

24.11.2022 - 08:59
Aukafundur í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, sem haldinn er að beiðni Íslands og Þýskalands, hefst í Genf í Sviss klukkan níu. Boðað er til fundarins vegna ástands mannréttindamála í Íran og framgöngu yfirvalda þar gegn friðsömum mótmælendum. Þar verður farið fram á að Sameinuðu þjóðirnar hefji markvissa gagnaöflun svo hægt verði að draga gerendur til ábyrgðar fyrir dómstólum. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra situr fundinn fyrir Íslands hönd.

Mótmælin hófust í minningu Masha Amini, 22 ára stúlku sem lést í haldi siðgæðislögreglu í höfuðborginni Teheran, í september. Konur hafa leitt andófið, þær hafa flykkst út á götur og birt myndskeið á samfélagsmiðlum þar sem þær hafa tekið ofan slæðuna, skert hár sitt og krafist réttinda og frelsis. Klerkastjórn Írans er hvort tveggja einráð og íhaldssöm. Öryggislögregla landsins hefur sömuleiðis mætt mótmælendum af mikilli hörku og mikill fjöldi fólks hefur látist, verið handtekið og jafnvel dæmt til dauða. 

Þórdís Kolbrún segir að Ísland eigi að nýta rödd sína á alþjóðavettvangi, sem sé sterk í þessum málaflokki. „Við heyrum sögur af því að ungmenni eru að fara að heiman og fara í skólann og ætla svo að mótmæla og kveðja í raun foreldra sína eins og þau komi ekkert aftur heim. Við sem lítið land með töluverðan trúverðugleika í ákveðnum málaflokkum getum gert alls konar hluti á alþjóðavettvangi. Við getum sagt hluti og við getum gert hluti. Og mér finnst mjög mikilvægt að Ísland nýti sína rödd og að við séum einmitt að staðsetja okkur þar sem við höfum trúverðugleika og getum gert eitthvað sem skiptir máli og breytir einhverju,“ sagði Þórdís Kolbrún í Morgunútvarpinu á Rás2 í morgun.