Starfsmönnum stærstu iPhone-verksmiðju heims nóg boðið

23.11.2022 - 14:42
Erlent · Apple · COVID-19 · iPhone · Kína
Mynd: Skjáskot / RÚV
Mótmæli hafa brotist út í stærstu iPhone-verksmiðju heims í kínversku borginni Zhengzhou. Myndbönd sýna hundruð verkamanna í áflogum við menn í hvítum heilgöllum og lögreglu.

Mótmælendur saka verksmiðjueigendur um að standa ekki skil á launagreiðslum og að hafa lokað starfsfólk af í sóttkví án þess að sjá því fyrir mat. Fjölmargir eru sagðir særðir eftir átökin.

Í síðasta mánuði var verksmiðjunni lokað um tíma eftir að einhverjir starfsmenn greindust með kórónuveiruna. Um 600 þúsund íbúum Zhengzhou-borgar var í kjölfarið meinað að yfirgefa heimili sín nema brýna nauðsyn bæri til. Stjórnvöld í Kína viðhafa enn strangar sóttvarnatakmarkanir og hika ekki við að leggja á útgöngubann á heilu borgirnar þegar smit greinast. 

Verksmiðjan í Zhengzhou er stærsta iPhone-verksmiðja heims og er í eigu taívanska fyrirtækisins Foxconn. Um helmingur allra iPhone-síma er framleiddur í þessari einu verksmiðju.