Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Laga hugbúnaðarvillu í á fjórða hundrað þúsund Teslum

21.11.2022 - 03:30
epa04049808 Elon Musk, co-founder and CEO of Tesla, poses with a model of the brand during a visit to Amsterdam, The Netherlands, 31 January 2014. The European Tesla Service is based in Tilburg and the European headquarters in Amsterdam.  EPA/JERRY LAMPEN
Elon Musk, stofnandi Teslu.  Mynd: EPA - ANP
Bandaríski rafbílaframleiðandinn Tesla þarf að laga hugbúnað í á fjórða hundrað þúsund bíla í heimalandinu vegna vandkvæða með afturljósabúnað þeirra. Nokkur bilanavandi hefur steðjað að framleiðandanum undanfarið. Ekki kemur til þess að viðskiptavinir þurfi að mæta á verkstæði til að láta gera við villuna. Þess í stað verður hugbúnaðaruppfærsla send rafrænt í bílana og gallinn lagaður.

Tesla er í eigu auðkýfingsins Elons Musk en í tilkynningu segir að afturljósin kvikni öðru hvoru í þeim 321 þúsund bílum sem undir þetta falla. Þeir af gerðunum Model 3 og Model Y, árgerðir 2020 til 2023.

Það á þó ekki við um bakkljós, stefnuljós eða bremsuljós bílanna. Bilunin er rakin til hugbúnaðarvillu að því er fram kemur í skjölum sem Tesla sendi bifreiðaeftirlitinu bandaríska (NHTSA) 15. nóvember en var gerð opinber um helgina.

Hugbúnaðurinn verður uppfærður eigendum að kostnaðarlausu en tilkynningar um bilunina bárust helst frá bíleigendum utan Bandaríkjanna. Ekki er vitað til þess að slys hafi hlotist af.

Í lok september innkallaði Tesla yfir milljón bíla þar sem slysahætta skapaðist meðan hliðarrúðum var rennt upp og fyrr á árinu þurfti að bregðast við mögulegum vanda í rafstýrisbúnaði. 

Sala á Tesla Model 3 hefur gengið vel sem Musk segir til marks um að rafdrifnir bílar séu framtíðin. Hann notaði gott gengi til að útskýra fyrir dómi í Delawere hvers vegna hann ætti skilið að fá 50 milljarða bandaríkjadala launagreiðslu. 

Uppfært 24. nóvember. Orðalagi hefur verið breytt í fréttinni. Rætt var um innköllun bíla sem mátti skilja sem svo að eigendur þyrftu að fara með bílana á verkstæði. Ekki kemur til þess.