Ótrúlegur viðsnúningur er Noregur sigraði

epa10305894 Norway's head coach Thorir Hergeirsson (C) and players react during the main round match between Norway and Slovenia of the Women EHF EURO 2022 in Ljubljana, Slovenia, 14 November 2022.  EPA-EFE/ANTONIO BAT
 Mynd: EPA

Ótrúlegur viðsnúningur er Noregur sigraði

20.11.2022 - 19:28
Úrslitaleikir Evrópumóts kvenna í handbolta fóru fram í dag. Noregur hafði betur gegn Danmörku eftir ótrúlegan endurkomusigur. Lokatölur urðu 25-27 en Danir leiddu lengst af. Voru þetta níundu gullverðlaun Þóris Hergeirssonar sem aðalþjálfari Norðmanna. Þá höfðu Svartfellingar betur gegn Frökkum í baráttu um þriðja sætið.

Ótrúlegur endurkomusigur

Danska liðið byrjaði leikinn af krafti og komst í 2-0 snemma leiks. Lengst af komust þær norsku ekki nær en sem nemur þriggja marka mun. Um miðjan fyrri hálfleikinn leiddu þær dönsku, 8-4. Í hálfleik voru Danir yfir 15-12 og útlitið nokkuð svart fyrir þær norsku.

Um miðbik síðari hálfleiks komust Danir í fjögurra marka forskot, 22-18, auk þess að vera manni fleiri. Norðmenn undir stjórn Þóris Hergeirssonar héldu hins vegar ró sinni og söxuðu hægt og rólega á forskotið. Þegar 44 mínútur voru liðnar var staðan 22-20 áður en danska liðið komst í 25-21, glæsilegur lokakafli hjá Norðmönnum sigldi gullinu að lokum heim. Lokatölur því 25-27.

Voru þær hreint magnaðar í síðustu tíu mínútum leiksins þar sem þær sneru leiknum sér í vil.

Hjá Dönum var Vinter Burgaard atkvæðamest með sex mörk en Emma Friis skoraði fimm mörk. Var hún valinn besti sóknarmaður mótsins.

Nora Mørk bar af hjá þeim norsku og var valinn leikmaður leiksins en hún skoraði átta mörk úr níu skotum. Endaði hún markahæst á mótinu með 50 mörk alls. 

Annars dreyfðist markaskorun jafnt hjá Norðmönnum en Kristine Breistol skoraði fjögur mörk úr fjórum skotum. Voru þær Maren Aardahl, Stine Oftedal, Vilde Ingstad og Henny Ella Reistad allar með þrjú mörk.

Henny Ella Reistad var að lokum valinn besti leikmaður mótsins.

Sigurganga Þóris heldur áfram

Afrek Þóris Hergeirssonar sem þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta eru nær ósnertanlegt.

Þórir þekkir vart annað en að stýra norska landsliðinu, en hann hefur verið viðloðandi liðið síðan 2001. Þá var hann aðstoðarþjálfari liðsins þar til árið 2009 þegar hann fékk tækifæri sem aðalþjálfari. Síðan þá þekkir norska þjóðin ekki annað en að berjast um sigurverðlaun.

Þórir hefur stýrt liðinu á 16 stórmótum en EM kvenna var hans sautjánda mót við stjórnvölinn.

Af þessum sautján mótum hefur hann 13 sinnum farið hið minnsta í undanúrslit. Hefur hann stýrt liðinu í úrslitaleik tíu sinnum áður og einungis tvisvar lotið í lægri hlut. Nú er hann með tölfræðina níu sigrar og tvö töp í úrslitaleikjum. 

Þórir á stórmótum:

Stórmót: 17

Undanúrslit: 15

Úrslit: 11

Þórir hefur aldrei endað neðar en í fimmta sæti og aðeins þrisvar mistekist að komast á verðlaunapall. Hefur hann skilað heim til Noregs 9 gull, 2 silfur og 3 brons.

Einn Ólympíutitill, þrír heimsmeistaratitlar og fimm gull á Evrópumótinu er afraksturinn eftir 13 ár sem þjálfari. Þá hefur hann einnig verið krýndur einni af æðstu orðum Noregs auk þess að vera margfaldur þjálfari ársins.

epa10316791 Mette Tranborg (L) of Denmark is challenged by  Henny Ella Reistad of Norway for the ball during the final match between Denmark and Norway of the Women EHF EURO 2022 in Ljubljana, Slovenia, 20 November 2022.  EPA-EFE/Zsolt Czegledi HUNGARY OUT
 Mynd: EPA-EFE - MTI
Það var hart barist í leiknum. Hér eigast þær Metta Tranborg (vinstri) og Henny Ella Reistad (hægri) við.

Svartfellingar tóku bronsið

Svartfellingar tryggðu sér bronsmedalíuna á EM kvenna í handbolta fyrr í kvöld. Þær höfðu betur í framlengingu og unnu að lokum tveggja marka sigur, 27-25 í æsispennandi leik.

Itana Grbic hafði áður verið hetja þeirra rauðklæddu er hún skoraði mark í blálok fyrri hálfleiks þar sem hún þrykkti boltanum fram hjá lánlausri Darleux í marki Frakka. Var því staðan 14-13 í hálfleik, Svarfellingum í vil.

Frakkar töpuðu boltanum eftir leikbrot eftir 58. mínútna leik og fóru Svartfellingar í sókn þar sem Jankovic kom þeim í 22-21. Frakka höfðu færi á því að jafna með lokasókn leiksins en svartfellska vörnin hélt vel. Frakkar fundu engar glufur og á endanum var dæmdur ruðningur á þær.

Svartfellingar brunuðu í sókn er lítið var eftir en boltinn var dæmdur af þeim. Það ótrúlega gerðist hins vegar þegar nokkrar sekúndur lifðu leiks en vítakast var dæmt á Svartfellinga er Frakkar hugðust taka aukakast á sínum vallarhelming.

Grace Zaadi Deuna fór á vítapunktinn og var öryggið uppmálað. Því var niðurstaðan 22-22 jafntefli og leikurinn í framlengingu. Svartfellingar sýndu hvað í þeim býr í framlengingunni og höfðu að lokum tveggja marka sigur.

Jovanka Radicvec var með sex mörk í sjö skotum. Jaukovic skoraði einnig sex mörk en þurfti til þess tólf skot.

Markaskorun Frakka dreifðist jafnt og þétt en Estelle Nze Minko skoraði fjögur mörk sem og Lucie Granier. Þær Laura Flippes, Orlane Kanor og Déborah Lassource voru með þrjú mörk.