Kynjatvíhyggjan hættuleg og til trafala

Mynd: Aðsend / Aðsend

Kynjatvíhyggjan hættuleg og til trafala

20.11.2022 - 11:00

Höfundar

Heimildarmyndasagan Kvár, eftir grafíska hönnuðinn, myndlýsinn og myndasöguhöfundinn Elías Rúna, fjallar um að vera kynsegin. Elías tók viðtöl við sex kvár um reynslu þeirra og setti saman bókina sem er sú fyrsta um þetta efni sem gefin er út á íslensku. Bókin er jafnframt fyrsta íslenska heimildarmyndasagan.

„Mér fannst þegar ég var að taka þessi viðtöl og skrifa þessa bók eins og það vöknuðu eiginlega fleiri spurningar en ég náði að svara,“ segir Elías Rúni um myndasöguna Kvár. Bókin er heimildarmyndasaga sem fjallar um að vera kynsegin; að upplifa sig hvorki karlkyns né kvenkyns, hvort tveggja í senn eða eitthvað allt annað. Bókin er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi, bæði hvað varðar efnistök og form, og byggir á viðtölum við sex kvár um reynslu þeirra og skoðanir. Rætt var við Elías Rúna í Víðsjá á Rás 1.  

Myndasögur taka vel utan um stór og smá málefni 

Kvár er önnur myndasaga Elíasar. „Þetta byrjaði á því að ég var á lokaári í grafískri hönnun við Listaháskólann og var að velja útskriftarverkefni og það kom eiginlega ekki annað til greina en að gera myndasögu.“ 

Elías hefur verið heillaður af heimildarmyndasagnagerð lengi og nefnir Joe Sacco sem áhrifavald í þeim efnum. „Mér finnast myndasögur vel til þess fallnar að útskýra stór og flókin fyrirbæri eins og stríð en líka ótrúlega persónulegar sögur eins og kynvitund.“ 

Elías er kynsegin og efnið stendur honum því nærri. Hann ákvað því að nýta þann tíma sem hann hafði til að vinna að lokaverkefninu við Listaháskólann í viðtöl og rannsóknir á efninu. Afraksturinn er bókin Kvár sem kom út í fyrra og seldist strax upp en hefur nú verið endurútgefin af Unu útgáfuhúsi.  

B.A.-ritgerð varð að bók 

„Það var alveg erfitt að koma svona flókinni reynslu og skilgreiningum fyrir í svona stuttu máli,“ segir Elías. Hann segir bókina ekki tæmandi upplýsingarit um hvað felist í því að vera kynsegin. „Mér finnst mikilvægt að fólk viti að þetta er inngangsbók. Þess vegna er undirtitillinn spurning - ekki þetta er að vera kynsegin - heldur hvað er að vera kynsegin?“ 

Elías valdi myndasöguformið til að miðla sögu sex kvára. „Ég hef fjallað svolítið um myndasögur, skrifaði meðal annars B.A.-ritgerð um heimildarmyndasögur, fréttamyndasögur og þær eru ótrúlega góður miðill til að einfalda flókin fyrirbæri, setja þau fram þannig að maður skilur þau á fljótlegri hátt.“ 

Kona, karl og kvár 

Mörg ný orð sem lúta að kynsegin og/eða hinsegin fólki hafa bæst við flóru íslenskrar tungu upp á síðkastið. Samtökin 78 efndu til hýryrðakeppni 2020 og þar var orðið kvár meðal annars valið sem ókyngreint nafnorð um fullvaxta kynsegin manneskju, samanborið við kona fyrir kvenkyns einstakling og karl fyrir karlkyns.  

Elías segir mikilvægt að hafa orð til að tala um eigin reynsluheim og hann segir að margt kynsegin fólk sem hann þekki til hafi ástríðu fyrir íslenskunni. „Það eru svo margir í kynsegin og hinsegin samfélaginu með ástríðu fyrir tungumálinu og vilja geta notað það til að tala um sína reynslu og þess vegna er svo ótrúlega mikilvægt að þessum orðum sé tekið fagnandi.“ 

Hann segir mikilvægt fyrir unnendur íslensku að tileinka sér nýyrðin en þau skipti kynsegin fólk persónulega líka miklu máli. „Það fylgir því vissulega mikið frelsi að geta notað þessi nýju orð en þá þurfa auðvitað allir að venjast því og það tekur tíma.“ 

Lög á Íslandi tryggja ekki alþjóðlegt öryggi  

Það er víðar er í tungumálinu sem kynsegin fólk finnur fyrir mótbyr. „Það er þannig, því miður, að víðast hvar í samfélaginu er ekki pláss fyrir kynsegin fólk. Það þarf ekki að leita lengra en á salerni í opinberum byggingum.“ 

Kynrænt sjálfræði var fest í lög á Íslandi árið 2019. Kynsegin fólk á Íslandi getur því verið skráð kynsegin í þjóðskrá og fengið gefið út vegabréf sem kona, karl eða kvár. En þó að þetta sé raunin á Íslandi tryggja íslensk vegabréf ekki öryggi kynsegin fólks utan landsteinanna. „Það er óljóst hvort kynsegin fólk með x-kynskráningu í vegabréfi geti ferðast hvar sem er um heiminn, geti lent í vandræðum, jafnvel verið stoppað og það þarf að bregðast við því.“ 

Hinn stafræni heimur er annar vettvangur sem enn á langt í land. „Þá er oft ekki gert ráð fyrir að fólk sé með aðra kynskráningu en karlkyns eða kvenkyns. Tölvan segir nei, það er bara ekki í boði.“ 

Kynjatvíhyggjan undirstaða feðraveldisins 

„Þessi kynjatvíhyggja er mjög stórt og flókið fyrirbæri og er grundvallarhugtak í okkar samfélagi,“ segir Elías. Hugmyndir um kynjahlutverk komust í umræðuna með bylgjum femínisma á síðustu öld þar sem tekist var á um hlutverk og félagsmótun kynjanna. Kynjatvíhyggjan byggir á að það séu til tvö kyn sem séu andstæða hvort annars og bæti hvort annað upp. „Þegar maður byrjar að hugsa um þetta er svo ótrúlega margt sem við skilgreinum út frá þessum tveimur pólum, karlkyni og kvenkyni, án þess að átta okkur á því.“ 

Elías segir að kynjatvíhyggjan sé undirstaða feðraveldisins. „Það er ekki hægt að undiroka annað kynið nema með því að skipta þeim í þessa tvo hópa og gefa þeim hvorum sinn eiginleika.“ Þetta finnst honum hættulegt viðhorf.  

„Við erum alltaf að flokka hvert annað og setja hvert öðru hömlur í ljósi þessara hlutverka.“ 

Litróf með dýpt í tónunum 

„Værum við ekki öll frjálsari að vera við sjálf ef við þyrftum ekki að falla inn í þessa hópa?“ Kynjatvíhyggjan er til trafala að mati Elíasar. „Þegar maður fer að brjóta þetta upp og hlusta á reynslu fólks sem fellur ekki í þessi box þá fer maður að efast um af hverju þetta varð allt til og hvaða tilgangi þetta þjónar allt í dag.“ 

Í stað kynjatvíhyggjunnar tala viðmælendur Elíasar í bókinni um kynvitund sem róf. „Það er hægt að líta á þetta sem róf með þessum tveimur pólum en svo er spurning hvort þetta sé ekki miklu flóknara, hvort þetta sé ekki meira þrívítt. Af hverju er þetta bara lína?“ 

Einn viðmælanda hans segir kyn vera litróf með dýpt í tónunum. „Þegar grannt er skoðað er það mjög stór hluti af okkar sjálfsmynd og erfitt að hugsa sér það sem bara einfalda línu, það er miklu flóknara en það.“ Hann segir hollt fyrir alla að velta fyrir sér kynvitund sinni. „Ég er allavega mjög þakklátur fyrir að vera kynsegin og hafa fengið aðra sýn á kynvitund og hvað það þýðir.“ 

Rætt var við Elías Rúna í Víðsjá á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV. 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Hugmyndarík, falleg og dálítið hrollvekjandi saga

Jafnréttismál

Kváradagurinn haldinn hátíðlegur í dag

Jafnréttismál

„Get ímyndað mér að ég fengi möguleikana karl og karl“

Pistlar

Frá Berlín til Auschwitz