Heimsfræg eftir birtingu óumbeðinna ástarbréfa

Mynd: Clarissa Gallo / Aðsend

Heimsfræg eftir birtingu óumbeðinna ástarbréfa

19.11.2022 - 09:00

Höfundar

Hinn dularfulli Dick svaraði aldrei ástarbréfum rithöfundarins Chris Kraus, sem birtast í bókinni I love Dick frá árinu 1997. Bókin var gagnrýnd á sínum tíma fyrir hispursleysi og jafnvel áreitni en í dag er hún talin tímamótaverk í feminískum bókmenntum.

I love dick eftir bandaríska rithöfundinn Chris Kraus er skrifuð að stærstum hluta í formi bréfa, öll stílið á sama manninn, mikilmennið hann Dick. Hún fjallar um hjónaband Chris og Sylvere Lotringer og þráhyggju þeirra, hennar sérstaklega, fyrir háskólaprófessornum Dick.

Chris verður ástfangin af honum og tekur upp á því ásamt manni sínum að skrifa ástarbréf til hins heittelskaða. Ú verður saga um þrá, ást, samskipti kvenna og karla, gagnkynhneigð, jaðarsetningu, völd, höfnun, þráhyggju, útrás og svo mætti lengi telja.

Lóa Björk Björnsdóttir þáttastjórnandi Lestarinnar las bókina og freistaði þess að ræða við höfundinn með því að senda póst á umboðsmann hennar. Chris samþykkti að ræða við Lestina og þær ræddu saman símleiðis. Fyrsta spurning Lóu snerist um samhengi bókarinnar, hvernig það hefur þróast og breyst og hvaða áhrif það hefur á lestur hennar.

Ímyndarsmíð og sjálfsálit á samfélagsmiðlum

Mikið vatn hefur nefnilega runnið til sjávar á þeim 25 árum sem liðin eru frá útgáfu. Sem fyrr segir var höfundur gagnrýnd á sínum tíma fyrir að voga sér að fjalla um nafngreinda aðila og tala opinskátt um einkalíf sitt og óra en í dag þykir slík opinberum sjálfsagður hlutur í listum og lífi. Sú þróun aukist með tilkomu samfélagsmiðla en líka byltingum á borð við MeToo.

Persónulegar sögur verða því æ stærri hluti af meginstraumsmenningu og í dag eru listamenn gjarnir á að fjalla um einkalíf sitt og að láta allt flakka.

Chris segir ljóst að margt hafi breyst og það hafi áhrif á lesturinn en bætir þó við að hún sé þó efins um einlægnina á bak við það sem fólk tjáir á samfélagsmiðlum.

„Mikið af þessum afhjúpunum hafa meira að gera með ímyndarsmíð og sjálfsálit,“ segir hún. Hún vill meina að meintur heiðarleiki hafi minna að gera með inngildingu, sannleika og heiðarleika en meira með þörf fólks til að koma sér á framfæri og láta taka eftir sér.

Hver má segja hvað?

Þessi umræða tengist öðrum þræði í bókinni þar sem spurningunni er velt upp um hver megi í raun segja hvað. Flóknir sannleikar eru ekki alltaf auðmeltanlegir því þeir geta ögrað sýn fólks á heiminn og stöðugleikanum. Jafnvel þó að vestrænt samfélag, eins og í Bandaríkunum eða á Íslandi, upplifi sig sem frjálslynt er enn margt sem ekki er auðsótt að tala opinskátt um. Þá stöndum við frammi fyrir spurningunni um valdið.

Chris segist sjálf hafa búið við ákveðið frelsi því hún hafi upplifað sig utangarðs í þeirri lista- og menningarsenu sem hún fjallaði um. Það hafi því verið auðveldara að koma auga á og gagnrýna það sem væri skrýtið en fyrir þá sem eiga eitthvað í húfi í valdasamfélaginu. Sjálf hafði hún engu að tapa.

Chris vill meina að hafirðu enga stöðu til að missa sértu raun frjálsari til að segja það sem þér liggur á hjarta. Aðrir þurfi að passa sig að styggja engan.

Fór til Nýja Sjálands og bað fólk afsökunar

Maður Chris, sem skrifar bókina með henni, var heimspekiprófessor í Columbia-háskóla þegar bókin var skrifuð. Sjálf upplifði Chris sig að miklu leyti sem fylgihlut sem ekki væri tekin alvarlega. Þess vegna óraði hana ekki fyrir því að fleiri myndu lesa bókina en nokkurhundruð manns. Sú staðreynd gaf henni líka enn meira frelsi til að vera opinská. En miklu fleiri en hundruðir og milljónir hafa lesið bókina og lesendur eru sífellt að bætast við.

Chris fjallar í bókinni að miklu leyti um árin sem hún bjó í Nýja Sjálandi en hafði enga trú á að bókin myndi rata þangað svo hún hikaði ekki við að nafngreina fólk þaðan í bókinni. Nokkrum árum síðar sá hún sig knúna til að fara til Nýja Sjálands og biðja fólk afsökunar á að hafa skrifað um þau án leyfis.

Hún hafði hins vegar verið varkárari í umfjöllun sinni á íbúa í New York og L.A. því hún taldi mögulegt að einhver þeirra læsi bókina. Ef hún hafði eitthvað óþægilegt að segja um nafngreinda aðila breytti hún nöfnum þeirra.

Afhjúpaði sjálfan sig

En bókin var ekki bara gagnrýnd fyrir að vera opinská og hispurslaus. Önnur gagnrýni, sem strax fór að láta á sér kræla, kom frá þeim sem lásu hana og tóku afstöðu með Dick. Fólk hafði samúð með honum og leit á hann sem fórnarlamb eltihrellis.

Í því samhengi bendir Chris þó á að sjálf hafi breytt öllum staðreyndum um hann sem hægt væri að rekja til hins raunverulega Dicks, sem er fjölmiðla og félagsfræðiprófessor í Háskólanum í Kaliforníu.

Chris bauð honum sjálfum að einnig skrifa inngagn í bókina sem hann hafnaði. Þegar bókin kom út þá steig hann hins vegar fram og reyndi að hrekja skrifin á þeim forsendum að hún hafi komið sér í uppnám. „Þá fyrst gat fólk gert tenginguna við hann.“

Þráhyggja verður ekki til í tómi

Margir þeirra sem lesa bókina upplifa þráhyggju Chris og ást hennar á Dick sem einhliða en sjálf svarar hún því að slíkt verði ekki til í tómi því hin manneskjan hafi alltaf eitthvað gert til að kveikja neistann til að viðhalda honum. Persóna hennar hefði að sögn aldrei gengið á eftir Dick ef hann hefði ekki verið að senda henni tvíræð skilaboð.

En það getur verið flókið að vera á hinum endanum í slíkum samskiptum og að reyna að rýna í skilaboðin til að skilja hvað það er sem manneskjan vill frá þér.

Chris segir að slík þjáning, sem flestir þekkja, sé einkennandi fyrir þetta tímabil í rómantískum samskiptum þegar fólk eyðir klukkustundum í að rýna í SMS skilaboð og skilja hvar þau standi gagnvar hinum aðilanum.

En var Dick einn þeirra sem var allrar þessar athygli virði? Chris segir að svarið við því fari handan hins einstaklingsbundna og persónulega enda snúist bókin ekki bara um þessa tilteknu manneskju heldur ást og þrá almennt.

Þráði hann vegna þess að hann veitti henni innblástur í hugðarefnunum

Þegar líður á bókina fer frásögnin enda að snúast mun meira um list, heimspeki, listaverk, bókmenntir og almennar vangaveltur um lífið og tilveruna.

Það er engin tilviljun og í raun það sem kveikti bálið sem logar í gegnum bókina. Chris segist aldrei hefðu þróað þessa þráhyggju fyrir Dick nema því að hann veitti henni innblástur í slíkum pælingum. Hann starfaði á þessu sviði, skrifaði um öll þessi málefni sem hún skrifar um í bréfunum til hans og þess vegna vill hún tala við hann um þessa hluti.

Með ástarjátningum sínum fékk hún tilefni til að tjá sig um þessi áhugamál sín sem Dick deildi með henni. Þannig varð hann að hinum fullkomna hlustanda.

Til að byrja að skrifa þarf einhvern til að tala við

Að lokum segir höfundur að það sem allir þurfi, til að byrja að skrifa, sé einhver til að tala við. „Allt er í samhengi. Það er ekki hægt að tala út í tómið, þú beinir því alltaf eitthvert.“

Dick varð því hennar áheyrandi, lesandi, manneskjan sem hún gat sagt þessar hugmyndir við, sem höfðu kraumað undir niðri í öll þessi ár. Stíflan sprakk og það var svo mikið sem hún gat sagt.

Í gegnum allar þessar flækjur sínar með karlmenn, ást, list, kvenleika, þrá finnur Chris Kraus höfundarödd sína. Með því að skrifa til Dick í fyrstu persónu, bréf sem henni finnst vera mesti sannleikur sem hún hefur sagt.

Lóa Björk Björnsdóttir ræddi við Chris Kraus í Lestinni á Rás 1.