Hinsegin umfram aðra í Nýló

Mynd: RÚV / RÚV

Hinsegin umfram aðra í Nýló

16.11.2022 - 14:02

Höfundar

Í Nýlistasafninu stendur yfir sýning sem er ætlað að draga fram hinseginleika í íslenskri list. Sýningin er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi og samanstendur af verkum úr safneign Nýlistasafnsins og nýjum verkum eftir hinsegin listafólk. 

Átta hinsegin listamanneskjur eiga ný verk á sýningunni sem nú fer fram í Nýlistasafninu. Þau völdu verk úr safneign safnsins sem innblástur fyrir verk sín. Viktoría Guðnadóttir og Ynda Eldborg, sýningarstýrur, skoðuðu safneignina og völdu 54 verk sem þær segja að megi á einn eða annan hátt kalla hinsegin. Þær segja hinsegin gleraugun gagnleg við að greina hinseginleika í list. 

„Svo er það bara tilfinningin fyrir listasögunni og síðan eru það fræðikenningar sem hægt er að nota til þess að finna út eða átta sig á því hvað getur verið hinseigin list og það er auðvitað allt á rófinu,“ segir Viktoría.

Kynleysi í stafrænum heimi

Regn Sólmundur Evu byggði verk sitt á verki eftir Rögnu Hermannsdóttur, sem hán segir endurspegla stafrænt kynleysi. „Á netinu og í stafræna heiminum þurfa kyn ekki að vera til. Það geta allir verið nafnlausir ef þeir vilja eða bara búið til nýjan karakter fyrir sjálft sig í rauninni. Verkið mitt sem heitir Genderator, þar geturðu fengið nýtt kyn. Sem er í rauninni bara blanda af þremur slembiorðum, eða slembivöldum orðum, og þremur teikningum og einum bakgrunnslit. Þannig að ég held að ég sé að fara í öfuga átt með því að gera svona mörg ný kyn, innan gæsalappa.“

Með og utangarðs sem trans kona

Hrafna Jóna Ágústsdóttir segir verk sitt endurspegla óöryggi í líkamsímynd sinni sem trans kona. „Sem transkona er ég svoltið frávik í minnihlutahóp. Það lá því beinast við að ég myndi nota mig og hvernig ég upplifi það að vera bæði með og utangarðs.“

Tungumálið hefur verið kyngert

Sýningarstýrurnar segjast vilja kynsegja málið og vekja athygli á því að málið innan listastofnanna hafi verið kyngert. „Það eru ekki bara tvö kyn, þess vegna er í rauninni einfaldara að tala um listafólk og listamanneskjur.“ Þær segja hinsegin list og hinsegin myndlistarfólk hafa verið utangátta í listheiminum á Íslandi. „Heterónormatíva liststofnunin á Íslandi hafði engan áhuga.“

Rætt var við Viktoríu Guðnadóttur og Yndu Eldborg í Kastljósi. Hér er þátturinn í heild sinni í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Myndlist

Málar marglaga málverk af náttúru Íslands

Myndlist

Sagan sögð í súkkulaðibréfum og sykurvatni