Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Harmur sem sum okkar eru svo heppin að sleppa við

Mynd: Benedikt / Benedikt

Harmur sem sum okkar eru svo heppin að sleppa við

15.11.2022 - 09:32

Höfundar

„Við skulum þó ekki efast eitt augnablik um að þessar lýsingar eru engan veginn óraunsæjar og við erum jafnvel að fá eitthvert form félagslegs raunsæis í þessum þróttmiklu lýsingum á erfiðum aðstæðum þar sem persónurnar fá ekki ráðið við það verk að lifa.“ Gauti Kristmannsson rýnir í Allt sem rennur eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Hráslagalegur veruleikinn er stundum óþægilegur um að hugsa, en það getur verið áhugavert að fá hann óþveginn hjá skáldunum eins og raunin er í þessari bók. Bergþóra Snæbjörnsdóttur hefur vissulega snúið áður upp á handleggina á ljóðrænunni í prósaljóðabókinni Flórídu, en í þessari, Allt sem rennur, tekur hún einhverja snúninga enn. Ljóðin eru ekki eins prósakennd og í þeirri fyrri, en samt er hér verið að segja sögu, eða sögur öllu heldur, af hrollköldum veruleika nokkurra kvenna sem sem verða undir, upplifa hrikaleg augnablik, barnsmissi í tvöföldum skilningi, og það að kunna kannski ekki of vel við börnin sín.

Tengingar persóna læðast fram 

Bókin hefst á tveimur fremur óræðum ljóðum þar sem kvenpersónur eru í aðalhlutverkum þótt ekki sé hægt að sjá beina tengingu við ljóðin í framhaldinu. Þau skiptast hins vegar í fjóra kafla, eða bálka eins og stundum er sagt um ljóð, og tengjast þeir allir innbyrðis í gegnum persónurnar, Fjöru, fráskilda konu með tvo syni; aðra konu, þá fyrirlitlegu, sem er bloggari og vöðvastrákinn son hennar, hann á hins vegar kærustu með bleikt hár sem er deildarstjóri á sjúkrastofnun þar sem móðir Fjöru er geymd, en barnið var tekið af henni á sínum tíma. Móðir Fjöru er „stelpan sem breytti sér í fjall“. Nauðsynlegt er raunar að lesa bókina tvisvar til átta sig á þessu, en hún verður bara áhugaverðari við fleiri lestra, tengingar persónanna læðast að innan um hrollvekjandi lýsingar á tilveru þeirra og verður að segjast að alvitur ljóðmælandinn tekur ljóðrænuna engum vettlingatökum í þessum hárbeittu lýsingum af sálarástandi og verknuðum persónanna.

Uppgjör andspænis lífinu og eigin lifnaði algjör

Fjöru hendir það að missa barnið sitt, eða dreymir hana það? „aftur og aftur / og aftur / finnur hún son sinn / líflausan á botni sundlaugar // þunnt hárið iðandi, dekkra / húðin slétt og bústin af vatni / hann er steingrár“. Samband hennar við eldri soninn er ekki gott, hann kemur öskrandi af fótboltavellinum og „ásökunartónninn nær alla leið inn í stofu // og hringir strax í sinn fyrrverandi / þú verður að taka hann / ég ræð ekkert / við þetta barn“. Sektarkennd móðurinnar gegnumsýrir textann þrátt fyrir að drengurinn hóti að drepa litla bróður sinn, „mun ég berja hann með skóflu / mun ég saga af honum hausinn“. Uppgjöfin andspænis lífinu og eigin lifnaði er síðan algjör og við skiljum við Fjöru þar sem hún er „vélræn með kaldar varir“ og er hún „virðir fyrir sér nakinn líkama sinn“ í spegli og ímyndar sér aðra barnsfæðingu „annan lítinn líkama sem passar / eins og púsl á milli dinglandi brjósta hennar / veldur henni líka vonbrigðum / þó fyrst og síðast með sjálfa sig“.

Væntingum lesenda snögglega snúið

Annar kaflinn, Fyrirlitleg, fjallar um aðra konu, þá fyrirlitlegu, frá sjónarhorni sonar hennar, vöðvastráksins, sem, eins og allar persónur bókarinnar, er ógæfumaður í orðsins fyllstu merkingu. En hún er heldur ekki svipur hjá sjón: „hún sveltir sig ekki / d e t o x a r / raunverulegur sultur er græðgin / þessi stöðugi þorsti að fá aldrei nóg / hún heyrði í morgunútvarpinu að nú væri faraldur / fjölónæmur lekandi / / og hennar fyrsta hugsun var / af hverju fæ ég aldrei fjölónæma og/eða / næma lekanda eða aðra exótíska kynsjúkdóma?“ Sjónarhornið breytist þó þegar vöðvastrákurinn sjálfur kemst í fókus og alvitur ljóðmælandinn tekur aftur stjórnina; við sjáum karlveru sem vinnur við malbik og lyftir mikið í ræktinni, síðar umhverfist hann í ofbeldismann og handrukkara en kemst síðar í vinnu því bleikhærða „kærastan reddar vöðvastráknum næturvöktum / sambýli í miðbænum / þar sem hún er deildarstjóri“. Hún er hins vegar eldri en hann, tveggja barna móðir sem „lærði sálfræði í háskóla /hefur aldrei jafnað sig á því / af hafa fengið barnakrabbamein í heilann“. Hér má sjá í hnotskurn hvernið skáldið vinnur með væntingar lesenda með snöggum snúningum á þeim, það sem rekur á eftir lestrinum er þessi spenna sem myndast yfir því hvernig línunum fram vindur, það er oft óvænt en um leið mjög vekjandi.

Hefndin er kaldur réttur

Þriðji kaflinn, Stelpan sem breytti sér í fjall, lýsir lífshlaupi stelpunnar sem hættir að fylgjast með tímanum: „hægt og örugglega hefur stelpan breytt sér / hlaðið vegg úr holdi til að sjást ekki [...] andlitið kjötgríma, dauð og frosin en / undir grímunni iðar hún af lífi“. Hún var svo óheppin hitta einhvern eldri mann 15 ára og lýsingin á því sambandi býr yfir öllum þeim kaldranaleika og íroníu sem gerir þessa bók svo kraftmikla. Ljóðið ber titilinn „faðir barnsins var ekki slæmur maður þótt hann drykki“ Það hljóðar svo í heild sinni:

hann var jú öryrki eftir vinnuslys og hann verkjaði

svo mikið að þorstinn var að drepa hann

svo stelpan sá fyrir þeim báðum

með líkama sínum

þegar hún sagði honum fréttirnar

þvertók hann fyrir að vera faðirinn

sló hana í munninn þannig að blæddi

hótaði að drepa hana í svefni

ef hún léti ekki eyða því

æpti svo (og þetta man hún orðrétt)

varstu ekki á pillunni, heimska tík?

Ofan í þessa ógæfu er barnið síðan tekið af henni með valdi strax eftir að hún hefur gefið því nafn, Fjara. Hefnd hennar er síðan kaldur réttur, því að í einum ironíusnúningnum leggst hún ofan á vöðvastrákinn, held ég, og kæfir nánast í krafti síns fjallstóra líkama. Önnur íronía í því sambandi er einmitt atvik fyrr í bókinni, þar sem vöðvastrákurinn lagðist með valdi ofan kærustuna sína, karma er skemmtilegt í skrifum bóka.

Örlar á trega andspænis dauðanum

Lokakaflinn er síðan framhald eða endurskoðun á lífshlaupi Fjöru, lífi hennar hjá fósturforeldrum sem ekki fer vel fyrir frekar en öðrum persónum og loks lokar ljóðmælandinn hringnum með banalegu konunnar fyrirlitlegu þar sem „vöðvastrákurinn þegir með / systur sinni og fjölskyldunni hennar // á meðan / sárin dreifa sér eins og villieldar / um vaxkennda húð hennar / titrandi hönd móður þeirra / kólnar“. Það örlar jafnvel á trega andspænis dauðanum í lokaljóðunum, þótt hann nálgist ekki augnablik að verða væminn, en hann er þarna líkast til að við lesendur eigum einhvern möguleika á að jafna okkur eftir allan hamaganginn og sorgirnar í þeim lífum sem þarna er lýst. Við skulum þó ekki efast eitt augnablik um að þessar lýsingar eru engan veginn óraunsæjar og við erum jafnvel að fá eitthvert form félagslegs raunsæis í þessum þróttmiklu lýsingum á erfiðum aðstæðum þar sem persónurnar fá ekki ráðið við það verk að lifa. Það er þeirra harmur sem sum okkar eru kannski svo heppin að sleppa við.

Gauti Kristmannsson flutti pistil sinn í Víðsjá á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV. 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Maður situr eftir dálítið sleginn“

Bókmenntir

Lesa upp úr dagbókum ef þær verða ekki eldsmatur áður

Bókmenntir

Stal grimmt frá fjölskyldu ástmannsins

Bókmenntir

Listilegar lýsingar og enginn byrjendabragur