Segir sum fyrirtæki græða stórkostlega á auðlindinni

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson - RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, gerði meðal annars heilbrigðiskerfið, sjávarútveginn og sjálfbærni Íslendinga í orkumálum að umræðuefni í ræðu sinni á haustþingi Framsóknarflokksins, sem haldið er á Ísafirði. Hann sagði til að mynda enga sátt ríkja um sjávarútvegsmálin. Á því verði að finna lausn.

Álag í heilbrigðiskerfi gríðarlegt

Hann sagði starfsfólk í heilbrigðiskerfinu hafa unnið þrekvirki á síðustu árum, undir gríðarlegu álagi. 

„Fyrir það verður aldrei þakkað nægilega.“

Að sögn ráðherrans eru þær breytingar sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra vinnur að í heilbrigðiskerfinu til þess að auka skilvirkni. Á sama tíma verði auknum fjármunum veitt inn í kerfið. Ekki veiti af. 

Þá benti hann áskoranir í heilbrigðiskerfinu, eins og þá staðreynd að þjóðin sé að eldast. Því fylgi verkefni sem ekki verði litið fram hjá. 

„Við sjáum líka aukna lífstílssjúkdóma sem við verðum að bregðast við, ekki aðeins með meðferðum heldur ekki síður með forvörnum. Og þar hefur Willum stigið mikilvæg skref, nú síðast með mikilvægri umræðu á Heilbrigðisþingi sem helgað var lýðheilsu. Heilsa eins er hagur allra.“

Enginn sátt um sjávarútveg

Sigurður Ingi lagði mikla áherslu á sjálfbærni í ræðu sinni. Hann sagði að um allan heim væri litið til sjávarútvegs á Íslandi sem fyrirmyndar um það hvernig umgangast eigi sjávarauðlindina. Sjávarútvegur myndi auk orkuframleiðslu og ferðaþjónustu þrjár mikilvægustu stoðir íslensks efnahags. 

„Um hann ríkir ekki friður og hefur ekki gert um langa tíð. Nú stendur yfir vinna þar sem reynt er að skapa sátt um þessa mikilvægu atvinnugrein. Í hverju felst ágreiningurinn? Sumir segja að sjávarútvegurinn greiði allt of lítið til samfélagsins og er þá helst litið til veiðigjalda. Aðrir telja að greinin greiði helst til mikið.“

Sigurður Ingi sagði að eitt af vandamálunum við umræðuna um sjávarútveginn felist í því að greinin sé fjölbreyttari en stóru útgerðirnar sem mest eru í umræðunni. 

„Sjávarútvegurinn er settur saman af mjög ólíkum fyrirtækjum sem sum berjast í bökkum meðan önnur græða stórkostlega á aðganginum að auðlindinni okkar og þeim möguleikum sem vinnslan, nýtingin og markaðsaðstæður bjóða upp á. Ég hef áður fjallað um nauðsyn þess að gera breytingar á kerfinu í sjávarútvegi. Ég hef talað fyrir því að það verði staðfest í stjórnarskrá að fiskurinn í sjónum sé eins og aðrar auðlindir landsins í eigu þjóðarinnar. Ég hef lagt áherslu á það verði að nást sátt um að stærri hluti af ofurhagnaði einstakra fyrirtækja renni til þjóðarinnar.“

Hann sagði þrepaskiptan tekjuskatt fyrirtækja hugsanlega lausn. „Það má nefnilega ekki verða þannig að auknar álögur á sjávarútveginn verði til þess að þeir sem minna bolmagn hafa verði undir og samþjöppunin verði enn meiri.“

Sjálfbærni í orku

Hvað orkumál varðar undirstrikaði Sigurður Ingi að við værum vel sett hér á landi. Hann nefndi orkukrísu í Evrópu til samanburðar.

„Hér á Íslandi eru 80 plús prósent af orkunotkuninni í formi græns rafmagns frá vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum og vegna grænnar hitaveitu sem kyndir híbýli okkar langflestra. Það er einstök staða.“

Hann sagði Íslendinga hafa tækifæri til þess að verða alveg sjálfbær í orku. Það setji okkur í mun betri stöðu þegar kemur að fæðuöryggi. 

„Því eins og staðan er í dag þá myndu ekki líða margar vikur frá því að síðasta olíusendingin kæmi til landsins og þangað til við myndum ekki geta framleitt matvæli vegna skorts á eldsneyti.“

Hann sagði stórt skref hafa verið tekið síðasta vor þegar Alþingi afgreiddi þriðja áfanga rammaáætlunar. 

„Framundan er að setja lagaramma utan um vindorkunýtingu. Það verður mikilvægt skref því eins og sýnt hefur verið fram á verðum við að framleiða meiri orku til að halda sömu lífsgæðum eða auka þau.“