Landbúnaðarfyrirtæki segja sig úr Samtökum iðnaðarins

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Nokkur fyrirtæki í landbúnaði, þar á meðal Mjólkursamsalan, hafa sagt sig úr Samtökum iðnaðarins. Mjólkursamsalan hyggst ganga í Samtök fyrirtækja í landbúnaði líkt og fleiri landbúnaðarfyrirtæki. 

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir úrsagnir tíu til tuttugu fyrirtækja og félaga ekki hafa teljandi áhrif á rekstur Samtaka iðnaðarins. Árið í ár hafi verið metár þegar kemur að fjölda nýrra félagsmanna en 150 ný fyrirtæki hafi gengið til liðs við Samtök iðnaðarins.

Breyttar áherslur

Pálmi Vilhjálmsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar, segir að áherslur hafi breyst og að fyrirtækið ætli að einbeita sér meira að Samtökum fyrirtækja í landbúnaði sem stofnuð voru í mars. Þar séu fyrirtæki sem hafi svipuð áherslumál og Mjólkursamsalan. 

Stjórnarformaður samtaka fyrirtækja í landbúnaði er Sigurjón Rúnar Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga. Samtökin fögnuðu nýverið þingsályktunartillögu Miðflokksins og telja að taka þurfi til skoðunar tollfrjálsan innflutning unninna landbúnaðarvara. Ísland sé eina Evrópulandið sem leggi ekki verðjöfnunargjöld á erlendar unnar landbúnaðarvörur.

Þá segir einnig á vefsíðunni að brýnt sé að veita afurðarstöðvum í kjötiðnaði svigrúm til að sameinast og stækka rekstrareiningar. Rekstrarumhverfi bænda myndi batna og verða líkara því sem gerist í Noregi og aðildarríkjum Evrópusambandsins, ef afurðarstöðvar í kjötvinnslu fengju heimild til að starfa saman og sameina einingar, gera samninga sín í millum og skipta með sér verkum.

Alls eru 20 félög í Samtök fyrirtækja í landbúnaði:

 • Bústólpi ehf.
 • Esja Gæðafæði ehf.
 • Fóðurblandan hf.
 • Ísfugl
 • Kaupfélag Skagfirðinga svf. – landbúnaðarsvið
 • Kjarnafæði Norðlenska ehf.
 • Kjötafurðastöð KS
 • Matfugl ehf.
 • Mjólkursamlag KS
 • Mjólkursamsalan ehf.
 • Norðlenska matborðið ehf.
 • Reykjagarður ehf.
 • SAH afurðir ehf.
 • Síld og fiskur ehf.
 • Slátuhús Hellu ehf.
 • Sláturfélag Suðurlands svf. – landbúnaðarsvið
 • Sláturhús KVH ehf.
 • Sláturhús Vopnfirðinga.
 • Stjörnugrís hf.
 • Sölufélag garðyrkjumanna.