Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Virða hvorki lög né merkingar

20.10.2022 - 11:32
Mynd með færslu
 Mynd: Umhverfisstofnun
Fólk á bílum og torfærutækjum veldur ítrekað gróðurskemmdum í Reykjanesfólkvangi með utanvegaakstri. Þó svo komið hafi verið upp skiltum til að vekja athygli á því að utanvegaakstur sé bannaður er ekkert lát á honum. Jafnvel má sjá miklar gróðurskemmdir beint fyrir aftan lokunarskilti. Ástandið versnaði til muna í covid-faraldrinum.

„Ákveðinn hópur virðist hvorki sjá þörf fyrir að virða lög né merkingar,“ segir Ásta Kristín Davíðsdóttir, yfirlandvörður og sérfræðingur í teymi náttúruverndarsvæða. Hún segir að þetta sé lítill hópur en brot hans bitni á öllum fjöldanum. Fólk sem keyrir utan vega getur átt yfir höfði sér háar sektir. „Ef við náum fólkinu eða náum myndum. Fólk hefur verið að senda okkur ábendingar. Ef við höfum upplýsingar þá sendum við inn kærur af því það er okkar hlutverk,“ segir Ásta Kristín. „Þetta er mjög sorglegt því við komumst að því í covid hvað svona svæði eru ótrúlega dýrmæt fyrir okkur, fyrir heilsu, andlega og líkamlega. Að hafa svona náttúruverndarsvæði í kringum okkur er ómetanlegt.“ „Við förum með sjálfboðaliða og rökum og lokum. Það væri hægt að laga slatta af þessu, innan vissra marka, ef við gætum stöðvað þennan utanvegaakstur,“ segir Ásta Kristín um leiðir til að bæta úr því tjóni sem valdið er með utanvegaakstri.  „Auðvitað er meirihlutinn ekki að gera þetta. Þessir eru að skemma fyrir meirihlutanum. Við fáum mikið af kvörtunum frá göngufólki og fólki sem er að keyra eftir vegum og finnst þetta sorglegt og hræðilegt.“