Flóttafólk ekki bara fyrirsagnir í fjölmiðlum

Mynd: Rauði krossinn / Aðsend

Flóttafólk ekki bara fyrirsagnir í fjölmiðlum

07.10.2022 - 14:51

Höfundar

„Það greip athygli mína að í raunveruleikanum þá eru þetta ekki bara fyrirsagnir í fjölmiðlum heldur er þetta fólk sem hefur einhverja þörf,“ segir Sveinbjörn Finnsson sem var sjálfboðaliði í flóttamannaverkefni Rauða krossins. Í kvöld er söfnunarþáttur til styrktar Rauða krossinum í beinni útsendingu á RÚV klukkan 19.40.

Í kvöld er á dagskrá RÚV söfnunarþáttur í beinni útsendingu þar sem Rauði krossinn hvetur landsmenn til að styrkja félagið og gerast Mannvinir. Sveinbjörn Finnsson, sjálfboðaliði í flóttamannaverkefninu og gjaldkeri Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu, er gestur Mannlega þáttarins á Rás 1. Hann segir frá þeirri þjónustu sem flóttamönnum er veitt, hvernig hún gengur fyrir sig og hvers vegna hann sjálfur ákvað að taka þátt.  

Þetta er fólk sem þarf stuðning

Sveinbjörn hóf sín sjálfboðaliðastörf árið 2016 og hefur sinnt ýmsum verkefnum síðan. „Ég hef verið í hinu og þessu en aðallega verkefnum tengt flóttafólki,“ segir hann. „Núna er ég kominn í stjórn Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu þar sem fókusinn í þeirri deild er flóttafólk og skaðaminnkunarverkefni.“ 

Hann segir blöndu af tíðarandanum og innri þörf fyrir að gera gagn hafi leitt sig út í sjálfboðaliðastörfin. „Það sem var í gangi þá var mikil umræða um flóttafólk, sérstaklega í Evrópu og það var byrjað að skila sér svolítið til Íslands,“ segir hann og tekur sem fólk frá Sýrlandi.

„Það greip athygli mína, þá fór maður að hugsa að í raunveruleikanum þá eru þetta ekki bara fyrirsagnir í fjölmiðlum heldur er þetta fólk sem hefur einhverja þörf og þarf stuðning og svo framvegis.“ Hann hafi hugsað með sér hvort hann gæti ekki gert gagn og mögulega gert líf þessa fólks, sem komið er alla leið til Íslands, aðeins bærilegra.  

Í mismunandi hlutverki eftir þörfum einstaklinga 

„Þannig ég bara sló til og kynnti mér aðeins hvað Rauði krossinn var að gera og sá að lokum þetta spennandi verkefni sem ég skráði mig í,“ segir Sveinbjörn. Nú kallast það að vera leiðsöguvinur þar sem sjálfboðaliði á borð við Sveinbjörn tekur að sér að hitta og kynnast einstaklingum sem hafa nýlega hlotið alþjóðlega vernd á Íslandi. „Þá tók við bara ótrúlega skemmtilegur, spennandi og krefjandi tími þar sem maður eiginlega bara hélt í hendina á viðkomandi sem er að reyna að finna út úr því hvað tekur við.“ 

„Þetta var ekki auðvelt,“ segir Sveinbjörn og tekur fram að hvert tilfelli sé ólíkt öðru. Hann hafi unnið með þremur ungum karlmönnum, einum í einu í tólf mánuði í senn. Nú sé þó búið að stytta tímabilið um helming svo hver sjálfboðaliði geti unnið með tveimur einstaklingum á tólf mánaða tímabili.  

Mennirnir þrír höfðu allir ólíkar þarfir eftir því á hvaða stað þeir voru andlega og úr hvaða bakgrunni þeir komu. „Þannig maður var í mjög mismunandi hlutverki milli þessara einstaklinga. Stundum var ég einhver sem var bara að finna út úr mjög praktískum málum.“

Þá hafi hann verið með einstakling sem var tilbúinn að keyra af stað og koma sér fyrir, finna íbúð og vinnu. „Svo var annar sem ég var að vinna með sem var bara á allt öðrum stað, var bara á erfiðum stað andlega. Þá fór maður í allt öðruvísi hlutverk, þurfti bara að vera til staðar, reyna að hlusta og reyna að skilja.“ 

Það sé mikilvægt að hjálpa viðkomandi á þeirra eigin forsendum og sýna skilning. „Byrja að reyna að skilja hvaðan þau eru að koma og veita stuðning í samræmi við það.“ 

Gagnkvæm félagsleg aðlögun 

Undirliggjandi í öllum þeim verkefnum sem snúi að flóttafólki sé gagnkvæm félagsleg aðlögun. „Þetta snýst um að hjálpa þessu fólki sem er mætt í okkar samfélag og okkar menningu að aðlagast. En þetta er gagnkvæmt því við erum líka að kynnast nýrri menningu og siðum. Þannig að einhverju leyti aðlögumst við líka.“ 

Hann segir að alls konar spurningar vakni hjá flóttafólkinu um ýmislegt varðandi íslenskt samfélag sem komi þeim ef til vill á óvart eða stemmi illa við þeirra heimsmynd. „Þá er gott að hafa einhvern eins og okkur sjálfboðaliðana í þessu verkefni sem er auðvelt að spyrja. Engar spurningar eru asnalegar spurningar, það er svolítið sú nálgun.“  

Klárlega verða til vinasambönd sem endast út ævina 

Hann segir allan gang á hvort sjálfboðaliðar og þeir einstaklingar sem þeir eru paraðir við haldi sambandi að tímabilinu loknu. „Sumir mynda samband sem lifir klárlega áfram eftir verkefnið. Aðrir ekki, bara af því að þannig var staðan hjá viðkomandi að þessu bara lauk og lífið hélt áfram,“ segir hann. Það sé algjörlega inni í myndinni að vinasambönd verði til sem endist vonandi út ævina og hjá honum sé tvímælalaust dæmi um slíkt.  

Sjálfboðaliðastarfið verður að vera sjálfbært svo fólk brenni ekki út  

Lagt er upp með að leiðsöguvinapörin hittist í fjórar til sex klukkustundir á mánuði og ákveði í sameiningu hvar og hvernig því sé háttað. Sjálfur hafi Sveinbjörn verið að vinna með að hitta skjólstæðinga sína í eina klukkustund á viku. Svo hafi þeir getað haft samskipti við hann utan þess tíma með hefðbundnum samskiptaleiðum.  

Hann segir að hálfpartinn hafi alltaf verið opin lína til sín. „Þetta er eitthvað sem sjálfboðaliðar þurfa að vera vakandi fyrir. Það er mjög auðvelt að opna alveg á sig og vera alltaf til staðar,“ segir hann. „Við höfum öll þörf fyrir að hjálpa og gera sem mest gagn en það má ekki vera þannig að maður gangi á sína eigin inneign heldur.“ 

Rauði krossinn undirbýr sjálfboðaliðana vel áður en farið er af stað. „Þetta geta oft verið erfið samtöl og erfið sambönd stundum en það þýðir ekki að þú sért ekki að gera ótrúlega mikið gagn. Viðkomandi er að fá rosalega mikið út úr þér þó svo að sambandið sjálft eða samtölin gefi það ekki alltaf til kynna.“ 

Þetta geti oft verið snúið en það þyki Sveinbirni vera hluti af því sem er svo gefandi við starfið. „Ég held að við vöxum öll við að fara inn í þannig aðstæður.“ 

Vantar sérstaklega unga karlmenn sem leiðsöguvini 

Hjá Rauða krossinum eru ýmis sjálfboðaliðaverkefni í boði og segir Sveinbjörn að allir ættu að geta fundið eitthvað við hæfi. „Þótt nákvæmlega þetta verkefni sem ég er búinn að ræða henti ekki einhverjum þá eru ótrúlega mörg verkefni sem Rauði krossinn sinnir, bæði tengd flóttafólki en líka öðru.“ 

Hann bendir sérstaklega á að verið sé að leita að ungum karlmönnum til að gerast leiðsöguvinir. „Reynsla okkar hefur sýnt í þessum flóttamannamálum að þegar við erum að para fólk saman þá virkar vel að spegla einhverja demógrafíu,“ segir hann. Stór hluti flóttafólks hér á Íslandi séu ungir karlmenn og svo að viðkomandi fái sem mest út úr verkefninu hjálpi það ef sjálfboðaliðinn sé það einnig. „Þannig ég auglýsi sérstaklega eftir ungum karlmönnum á bilinu 25-45 ára.“ 

„Við þurfum á öllu þessu að halda því næg eru verkefnin“ 

Verum vinir er söfnunarþátturinn sem er á dagskrá í kvöld og verður þar fjallað um þau fjölbreyttu störf sem Rauði krossinn sinnir. Til að mynda móttöku flóttafólks, neyðarhjálp fyrir þolendur náttúruhamfara og annarra áfalla, skaðaminnkun og þróunarsamvinnu.  

„Í fyrsta lagi mæli ég með því að fólk fylgist með þættinum, ég held að hann verði skemmtilegur og fræðandi. Svo mæli ég líka með því að fólk gerist sjálfboðaliði, ef það er snefill af áhuga að kynna sér það að minnsta kosti,“ segir Sveinbjörn. „Og í þriðja lagi mæli ég með að gerast mannvinur Rauða krossins, það er að segja styrkja mánaðarlega eins og hægt er þetta góða starf. Við þurfum á öllu þessu að halda því næg eru verkefnin.“ 

Rætt var við Sveinbjörn Finnsson í Mannlega þættinum á Rás 1. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan. Verum vinir verður á dagskrá RÚV í kvöld klukkan 19.40.  

Tengdar fréttir

Innlent

Flóttafólk ánægt með fjöldahjálparstöðina

Innlent

Aldrei fleiri hælisleitendur en það sem af er ári