Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Um helmingur Færeyinga vill herða þvinganir gegn Rússum

Mynd með færslu
 Mynd: Markús Þórhallsson/RÚV
Tæpur helmingur Færeyinga vill herða refsiaðgerðir gegn Rússum, helmingur vill slíta öll viðskiptatengsl og meirihluti vill banna rússneskum skipum aðgang að höfnum landsins. Þetta eru niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar.

Kannanafyrirtækið Spyr.fo spurði nú í vikunni 500  manns fyrir Kringvarpið um viðhorf til þvingana gegn Rússum.

Um það bil 49 prósent aðspurðra kváðust vilja herða viðskiptaþvinganir gegn Rússum, 23 af hundraði svöruðu þeirri spurningu neitandi og 28 prósent kváðust vera óákveðin í þeim efnum.

Þegar spurt var til hvaða bragða skyldi grípa sögðust 75 prósent svarenda vilja loka höfnum Færeyja alfarið fyrir komu rússneskra skipa og þar voru fiskiskip ekki undanþegin.

Landsstjórnin gaf út tilskipun í júlí þar sem öllum rússneskum skipum, að fiskiskipum undanþegnum, var bannað að leggja að bryggju í Færeyjum. Nokkrar undanþágur voru einnig tilgreindar, svo sem fyrir fley í vanda. 

Skiptar skoðanir eru meðal færeyskra stjórnmálamanna um hvort endurnýja skuli fiskveiðisamning við Rússa. Samningaviðræðum er ætlað að hefjast á næstu mánuðum en núgildandi samningur rennur út um áramót.

Viðhorf 34 prósenta í könnun KVF er að rétt sé að hefja viðræðurnar, 44 af hundraði sögðu það vera af og frá en 22 prósent voru óákveðin í afstöðu sinni.