Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Þetta er miklu stærra en bara MH“

06.10.2022 - 09:12
Hrefna Tryggvadóttir
 Mynd: Hrefna Tryggvadóttir - Fréttir
Nemendur Menntaskólans við Hamrahlíð ætla að ganga út úr tíma klukkan ellefu í dag og með því sýna þolendum kynferðisofbeldis stuðning. „Þetta er einmitt fyrst og fremst það, samstöðufundur, en líka á einhvern hátt mótmæli gegn ráðuneytinu og ríkisstjórn fyrir aðgerðarleysi,“ segir Hrefna Tryggvadóttir forseti nemendafélags MH.

Fleiri framhaldsskólar sýna stuðning í verki

Mikil óánægja hefur verið meðal nemenda skólans síðustu daga sem eru ósáttir með að þolendur þurfi að mæta meintum gerendum sínum á göngum skólans. Hrefna segist halda að svo gott sem allir taki þátt á eftir, bæði nemendur og kennarar. Þá hafa fleiri framhaldsskólar á landinu ákveðið að sýna MH-ingum stuðning í verki. 

- Hvert er markmið ykkar með þessum mótælum?

„Bara að yfirvöld og ráðuneytið taki þetta til sín og sjái skilaoðin. Það eru skýr skilaboð frá ungu fólki að gera eitthvað í málunum og það er ekki búið að gera neitt alltof lengi. Þetta hefur setið á hakanum alltof lengi. Það á enginn að þurfa að vera hræddur í skólanum eða þurfa að mæta gerenda sínum á göngum skólans. Það þarf að vera til taks einhver almennileg viðbragðsáætlun sem stjórnendur geta gripið til.“

Afsökunarbeiðnin góð en ekki nóg

Stjórnendur MH báðu nemendur formlega afsökunar í gær og sögðust harma það apð bæði núverandi og fyrrverandi nemendur hafi upplifað vanlíðan vegna mála er varða kynferðislegt ofbeldi og áreitni innan skólans. „Þessi mál eru viðkvæm, við erum að læra og viljum gera betur,“ sagði í orðsendingu á vef skólans í gær. 

„Ég held að það sé svolítið sem að nemendur hafa verið að bíða eftir. Í rauninni bara mjög gott og flott hjá þeim.

- En þið haldið ykkur samt við mótmælin á eftir, þetta breytir engu hvað það varðar?

„Já. Þetta er bara rétt svo byrjunin. Þetta er miklu stærra mál en bara MH. Þetta er kerfisbundið- og samfélagslegt vandamál líka. “