Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ósammála um hvert eigi að senda boltann

06.10.2022 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formaður VR segir að stýrivaxtahækkun í gær slái enn og aftur skjaldborg um fjármálakerfið og fjármagnseigendur. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að verðbólguþróun næstu misseri ráðist af kjarasamningum.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði, þegar hann kynnti stýrivaxtahækkun í gær, að bankinn hefði nú gert sitt og aðgerðirnar hefðu skilað árangri.  

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segir að með vaxtahækkuninni sé enn og aftur verið að slá skjaldborg um fjármálakerfið og fjármagnseigendur á kostnað fólksins í landinu og bankinn sé að velta alvarlegum hagstjórnarmistökum sem gerð voru með miklum vaxtalækkunum án þess að mótvægisaðgerðir kæmu til, til að mynda varðandi húsnæðismarkaðinn, yfir á launafólk. Refsingin sé því tvöföld.

Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að vaxtahækkunin hafi ekki komið á óvart, en það hefði heldur ekki komið á óvart ef Seðlabankinn hefði beðið með hækkunina. Hann segist skynja mýkri tón í yfirlýsingu peningastefnunefndar og að toppi verðbólgunnar sé náð. Seðlabankastjóri sagði í gær að nú væri boltinn hjá aðilum vinnumarkaðarins og stjórnvalda að leggjast á árarnar með bankanum í að ná verðbólgu niður. 

„Fyrir mér er það bara staðreynd, óumdeilanleg staðreynd. Við sjáum að tveir þriðju hlutar landsframleiðslunnar eru launakostnaður og hvernig tekst til við gerð kjarasamninga mun hafa ráðandi áhrif á verðbólguþróun næstu misserin,“ segir Halldór Benjamín.

Formaður VR segir að verið sé að reyna koma ábyrgðinni yfir á launafólk, skort hafi á aðstoð stjórnvalda við heimilin, fjárlagafrumvarpið feli í sér skattahækkanir og afkoma fyrirtækja sýni að  þau taki sífellt meira til sín. Það stangist á við það sem verið sé að predika yfir vinnumarkaðnum.

„Þannig að ég hefði frekar viljað sjá atvinnulífið, stjórnvöld, fjármálakerfið og seðlabankastjóra praktísera það sem þau predika.“