Konur fara út á götur vitandi að þær gætu verið drepnar

Mynd: EPA / EPA

Konur fara út á götur vitandi að þær gætu verið drepnar

06.10.2022 - 09:42

Höfundar

Hörð mótmæli standa yfir í Íran þar sem konur sætta sig margar ekki lengur við að vera tilneyddar að bera hijab-slæðu. Írönsk kona sem er búsett á Íslandi segir frelsi kvenna hamlað verulega og margar reglur hafi ekkert með trúmál að gera, eins og bann við því að hjóla eða mæta á fótboltaleiki. Hvergi sé nákvæma útlistun á siðgæðisreglum að finna og virðist það fara eftir geðþótta stjórnvalda hvar línan er dregin.

Síðustu vikur hefur verið mótmælt á götum úti víða í Íran í kjölfar þess að hin 22 ára Mahsa Amini lést í haldi siðgæðislögreglu landsins. Henni var gefið að sök að hafa ekki hulið hár sitt nógu vel undir hijab-slæðu sinni.  

Lóa Björk Björnsdóttir ræddi við íranska unga konu búsetta á Íslandi í Lestinni á Rás 1 um mótmælin, slæður og siðgæðislögregluna. Konan kýs að koma fram nafnlaust þar sem það geti komið sér illa fyrir hana og fjölskyldu hennar að hún gagnrýni írönsk stjórnvöld í fjölmiðlum. 

Segir ekki hvað sem er við hvern sem er  

Konan segir að írönskum yfirvöldum sé mikið í mun að halda þeirri ímynd á lofti að lífið í Íran sé alla jafnan frábært, að þar séu allir hamingjusamir. Tjái Íranar sig hreinskilnislega um daglegt líf ógni það þeirri ímynd. „Þetta er ekkert grín, ég er ekki að vera tortryggin. Þetta er alvarlegt vandamál sem er í gangi,“ segir hún.  

Það ríki ekkert tjáningarfrelsi, jafnvel fyrir brottflutta Írana. Hún segist hafa verið viðstödd mótmæli nýlega þar sem hún tók eftir að margir samlandar hennar voru grímuklæddir eða héldu sig heima af ótta við að það skyldi fréttast til Írans að þau hefðu mætt á mótmæli.  

Þrátt fyrir að hún tjái sig opinskátt við flesta vini sína hér á Íslandi þá verði hún að gæta þess við hvern hún lætur skoðanir sínar í ljós. Hún segir ekki hvað sem er við hvern sem er og talar ekki um ákveðna hluti í síma.  

Gleðst yfir að sjá karlmenn taka upp hanskann 

Í Íran búa yfir 80 milljónir manna og tekur unga konan fram að hún geti einungis lýst eigin upplifunum og skoðunum, hún tali ekki fyrir hönd neins annars. Mótmælin brutust út í kjölfar andláts Mahsu Amini. Opinber skýring stjórnvalda er að hún hafi fengið hjartaáfall þegar hún hlaut svokallaða hijab-þjálfun um hvernig ætti að bera slæðuna rétt. Konan segir að það trúi enginn þessari frásögn. Talið sé að hún hafi verið barin til dauða.  

Andlát Amini var kveikjan að mótmælunum sem eru með þeim harðari sem sést hafa í Íran. Tugir hafa látið lífið í átökunum og nú taki ekki einungis konur þátt heldur líka karlar. Í tímans rás hefur það valdið henni vonbrigðum hve lítinn stuðning þeir hafi veitt konum þegar þær hafi orðið fyrir óréttlæti og lengi var hún þeim afar reið fyrir að standa ekki með þeim og mótmæla yfirvöldum. Hún gleðst því yfir að sjá þá taka upp hanskann fyrir þær og taka þátt.  

Hún segir að karlmenn í lífi hennar hafi aldrei kunnað vel við hijab-lögin og séu gagnrýnir á siðgæðislögregluna.  

Forsetinn ákveður hvar línan er dregin 

Með íslömsku byltingunni sem lauk árið 1979 voru innleiddar harðari siðgæðisreglur í Íran. Ný íslömsk yfirvöld settu á borð lögboðinn klæðaburð sem skyldaði allar konur til að klæðast hijab. Slæðan er þó langt frá því að vera það eina sem takmarkar réttindi og frelsi kvenna í landinu.  

Konan segir að hvergi sé hægt að nálgast nákvæma útlistun á stöðlum siðgæðislögreglunnar. Það fari eftir hver sé við stjórnvölinn hverju sinni hvað þykir siðlegt og hvað ekki. Sumir valdhafar banni til dæmis hjólreiðar kvenna, aðrir ekki. Hún segir að það sé forsetans að ákveða hvar línan sé dregin.  

Amini hafi verið klædd á sambærilegan hátt og aðra daga, hún var með svarta slæðu og í svörtum víðum fötum. Hún hafi ekki gert neitt öðruvísi en vanalega en siðgæðislögreglan sé óútreiknanleg og aðgerðirnar beinist nánast alltaf að konum. Hún segir að sjaldnast komist karlmenn í kast við siðgæðislögregluna, í örfáum tilvikum er sett út á of stuttar buxur eða óvenjulega litað hár og hún skipti sér af ef grunur leikur á að þeir séu hinsegin. Það sem sé stærra vandamál séu ofsóknir þeirra á hendur konum.  

Handtekin fyrir að hjóla  

„Nánast allt mitt líf man ég eftir að þeir voru alltaf nálægt,“ segir konan. Eitt sinn hafi hún verið handtekin fyrir að hjóla á mannlausri götu. Farið var með hana á lögreglustöðina þar sem hún þurfti að skrifa undir yfirlýsingu um að hún myndi ekki hjóla meira. Slíkar uppákomur eru daglegt brauð hjá írönskum konum, þær geta ekki frjálst um höfuð strokið.  

Níu ára stúlkur hafi ekki þroska til að velja sjálfar 

Íranskar konur eru neyddar til að bera slæðu en sums staðar í Evrópu eins og Frakklandi, Sviss, Hollandi og Belgíu er svokallað búrkubann þar sem konum er bannað hylja sig. Á samfélagsmiðlum virðist þetta stundum vera sama baráttan og að hún snúist í báðum tilfellum um rétt kvenna til að velja. 

Konan sem rætt var við segir óheppilegt fyrir sig að geta ekki gagnrýnt slæðuna sem hún hafi verið neydd til að bera frá níu ára aldri, slæðu sem hún hafi aldrei kunnað vel við. Hún segir það birtingarmynd kúgunar og stöðu hennar í samfélagi heimalands síns að hún geti ekki gagnrýnt slæðuna án þess að vera sökuð um andúð á íslam.  

„Mín persónulega skoðun er að ég er ánægð með að Frakkland hafi bannað þessi lög,“ segir hún. Málið sé vissulega flókið en þegar umræðan snúist um val segist hún ekki skilja hvernig níu ára stúlkur eigi að hafa þroska og getu til að taka svo stóra ákvörðun. Það sé í raun alltaf val fjölskyldunnar hvort stúlkan beri slæðuna og því er val stúlkunnar ekki hennar sjálfrar. 

Frá fyrstu stundu hataði konan slæðuna sjálf og tók hún fljótlega upp á því að taka hana niður við hvert tækifæri. Móðir hennar ólst sjálf upp með hijab en áttaði sig á því seinna á lífsleiðinni að hún vildi ekki ganga með hana, það hafi því verið sárt að vera tilneydd með lögum að bera hana aftur.  

„Þetta snýst allt um karlmenn“ 

Aðspurð segir konan að konur eigi að hylja hár sitt og jafnvel líkama til að freista ekki karlmanna. Líkami og hár kvenna tákni kvenleika þeirra, því eigi að hylja það og ganga í víðum fötum, það sé ekki flóknara en það. „Þetta snýst allt um menn.“ 

Hún veltir þvi fyrir sér hvort málið snúist yfirhöfuð um losta og siðgæði eða um að vernda konur fyrir augnaráði og ágangi karlmanna, hvort þetta sé kannski bara enn önnur leið til að stjórna helmingi íbúa landsins. Sé öllum konum haldið niðri hafi ríkisstjórninni tekist að halda niðri helmingi íbúa og þar af leiðandi öllum. Það sé nefnilega mikið um reglur sem hamla frelsi kvenna sem hafa vissulega ekkert með íslam að gera, til að mynda komi hvergi fram í Kóraninum að konur megi ekki mæta á fótboltaleiki en það hafi verið lengst af bannað.  

Konur fara út á götur vitandi að þær gætu verið drepnar 

Mótmælunum í Íran er mætt af mikilli hörku og hefur fjöldi fólks verið handtekinn. Mannréttindasamtök segja að í það minnsta séu 154 manns látnir. Konur hafa tekið af sér slæðuna og brennt hana, skorið hár sitt frammi fyrir fagnandi mannfjöldanum og nú séu mótmælendur farnir að tala um að skipta út kerfinu, steypa valdamönnum af stóli. 

Konan telur að fólk sé búið að fá sig fullsatt af harðindunum og því hætti það nú lífi sínu fyrir málstaðinn. „Allar konurnar fara út á göturnar vitandi að þær gætu verið drepnar. Þær gera það samt af því að þær eru orðnar virkilega þreyttar og vilja ekki samþykkja þetta lengur.“  

Hún trúi því ekki að konur sætti sig við að slæðan verði einungis valfrjáls, það sé ekki nóg heldur þurfi að heyja marga baráttuna. Stjórnvöld geti ekki breytt því sem þurfi að breyta. Hún segir þau ekki þurfa leiðtoga til að leiða þau í átt að breytingum.  

Lóa Björk Björnsdóttir ræddi við íranska konu í Lestinni á Rás 1. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.  

 

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Segja öryggissveitir vísvitandi drepa mótmælendur

Stjórnmál

Klippti hár sitt í ræðustól Evrópuþingsins

Asía

Fordæmalaus mótmæli íranskra skólastúlkna