Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vongóður um sigur

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Í morgun hófst aðalmeðferð í Hæstarétti í máli Gráa hersins gegn Tryggingastofnun Íslands og íslenska ríkinu vegna skerðingar í almannatryggingakerfinu.

 

Grái herinn er baráttuhópur eldra fólks um lífeyrismál. Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði ríkið og málinu var áfrýjað til Hæstaréttar með þeim rökstuðningi að það hefði þýðingu fyrir rétt fjölda fólks til greiðslu ellilífeyris sem varðar hagsmuni þess og ríkissjóðs.

„Það er tekist á um að menn hafa safnað sér bæði í sínum eigin lífeyrissjóði  og með þátttöku í atvinnulífi í 40 ár og búsett á Íslandi og öðlast rétt til ellilífeyris frá ríkinu. Þegar menn ætla að taka út sinn lífeyri ákveður ríkið að breyta öllum forsendum og kalla það bætur sem eigi að ganga til þeirra sem þurfa á því sérstaklega að halda", segir Helgi Pétursson formaður Landssambands eldri borgara. Er hann vongóður um að Grái herinn hafi sigur?

„Já ég er það. Ég held að menn átti sig á því að þú getur ekki breytt leikreglunum svona afturvirkt. Menn verða að virða eignarréttinn og það sem menn lögðu af stað með, ellilífeyriskerfi og lífeyriskerfi sem átti að virka saman.  Ellilífeyrir átti að vera grunnstoðin og lífeyrir svo til viðbótar, það er grunnatriði í þessu öllu saman. Annars hefði þetta lífeyriskerfi aldrei orðið til".  Dóms er að vænta um miðjan næsta mánuð.

 

Arnar Björnsson