Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Vil takast á við nýjar áskoranir“

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

„Vil takast á við nýjar áskoranir“

05.10.2022 - 20:07
Sigurður Heiðar Höskuldsson lætur af störfum sem þjálfari Leiknis, í Bestu deild karla í fótbolta, að loknu þessu tímabili. Sigurður staðfesti þessi tíðindi í samtali við RÚV í kvöld.

Sigurður Heiðar tók við þjálfun Leiknis um mitt sumar 2019 þegarStefán Gíslason hætti sem þjálfari Leiknis og tók við Lommel í Belgíu. Árið 2020 kom Sigurður Leikni upp í efstu deild þar sem liðið hefur verið síðan.

„Ég er bara tilbúin að takast á við nýjar áskoranir."

Sagði Sigurður Heiðar við RÚV í kvöld spurður hvers vegna hann væri að hætta hjá Leikni.  Fótbolti.net hélt því fram í kvöld að Sigurður væri að fara í þjálfarateymi Vals en aðspurður sagði Sigurður slíkt ekki vera í farvatninu.

„Aðrar deildir eru búnar og það er farinn af stað einhver þjálfarakapall. Ég er bara tilbúin að takast á við nýjar áskoranir á mínum ferli,“ sagði Sigurður við RÚV í kvöld. Áður en það taka við nýjar áskoranir hjá Sigurði, bíður hans hins vegar það verkefni að reyna að halda sæti Leiknis í efstu deild. Leiknir er í 10. sæti með 20 stig, einu stigi meira en FH sem er sæti neðar, í fallsæti. Leiknir sækir FH heim í næstu umferð Bestu deildarinnar klukkan 14:00 á sunnudag.