Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Stjórnendur MH biðja nemendur afsökunar

05.10.2022 - 18:26
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend - Fréttir
Stjórnendur Menntaskólans við Hamrahlíð harma að bæði núverandi og fyrrverandi nemendur hafi upplifað vanlíðan vegna mála er varða kynferðislegt ofbeldi og kynferðislega áreitni sem hafi komið upp og ekki hafi verið tekið á með viðunandi hætti. „Þessi mál eru viðkvæm, við erum að læra og við viljum gera betur,“ segir í orðsendingu sem birtist á vef skólans nú síðdegis.

Mikil óánægja hefur verið meðal nemenda skólans síðustu daga. Þeir eru ósáttir með að þolendur kynferðisofbeldis hafi þurft að umgangast meinta gerendur sína í skólanum og mótmælt úrræðaleysi stjórnenda.

Stjórnendurnir segjast í yfirlýsingu líta kynferðislega áreitni og kynferðislegt ofbeldi mjög alvarlegum augum.  „Stjórnendur, starfsfólk MH og allt skólasamfélagið stendur með þolendum ofbeldis.“

Þeir segjast hafa tekið á móti tillögum nemenda um úrbætur og hvernig megi bæta ferlið þegar upp koma slík mál. „Eftir fund í dag með fulltrúum Sambands íslenskra framhaldsskólanema, SÍF, var ákveðið að skólinn yrði einn af samstarfsaðilum þeirra í aðgerðum gegn kynferðislegri áreitni og kynferðislegu ofbeldi.“

Við þetta má bæta að menntamálaráðherra hefur boðað alla skólameistara framhaldsskóla á sinn fund til að fara yfir viðbragðsáætlanir þeirra við kynferðisofbeldi.