Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

SÍF segir menntamálaráðherra fallinn á tíma

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Menntaskólinn við Hamrahlíð verður fyrsti skóli landsins til að taka á móti og innleiða aðgerðaáætlun Sambands íslenskra framhaldsskólanema, SÍF, er varðar kynferðislegt ofbeldi og áreiti í framhaldsskólum. Sambandið segir menntamálaráðherra og ráðuneyti hans fallið á tíma með sínar áætlanir.

Í fréttatilkynningu frá SÍF er aðgerðaleysi stjórnvalda í málum er varða kynferðislegt ofbeldi og áreiti í framhaldsskólum harmað. Sambandið sendi menntamálaráðherra áskorun um að klára viðbragðsáætlanir til að dreifa til skólastjórnenda 29. ágúst síðastliðinn, og hefur ítrekað hana reglulega í kjölfarið. Til þess að mæta því sem SÍF kallar aðgerðaleysi stjórnvalda tóku forsvarsmenn sambandsins málið í sínar hendur og setti af stað aðgerðarhóp. 

Í tilkynningu SÍF segir að tilgangur aðgerðarhópsins sé að setja saman aðgerðaáætlun og afhenda hana skólastjórum sem allra fyrst. Stefnt er að því að hún verði tilbúin næstu mánaðamót og hún verði innleidd í framhaldsskólum um miðjan næsta mánuð. Sólborg Guðbrandsdóttir var fengin til að leiða hópinn ásamt framkvæmdastjórn SÍF og níu öðrum ráðgjöfum, sem eru meðal annars kynjafræðikennarar og ráðgjafar frá Stígamótum.

Ásmundur Einar Daðason hefur kallað SÍF á sinn fund þriðjudaginn 11. október, segir í tilkynningunni. Þeim er boðið að taka þátt í starfi ráðuneytisins sem hefur unnið að áætlun. SÍF segir það mat stjórnar sambandsins að menntamálaráðherra og ráðuneytið séu fallin á tíma og SÍF ætli að halda áfram með eigin starfshóp. Þá hefur SÍF lagt til að vinna ráðuneytisins verði lögð til með verklagsáælun SÍF og áætlunin verði afhent í sameiningu.