Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Klippti hár sitt í ræðustól Evrópuþingsins

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Sænskur þingmaður á Evrópuþinginu sýndi konum í Íran stuðning sinn og samstöðu með því að klippa hár sitt í miðri ræðu í umræðum um mótmælin í kvöld. Fjöldi íranskra kvenna hefur skorið hár sitt í mótmælaskyni ásamt því að brenna höfuðslæður á báli.

„Við stöndum með baráttu allra kvenna í Íran fyrir frelsi sínu,“ sagði Evrópuþingmaðurinn Abir Al-Sahlani, sem er ættuð frá Írak, og krafðist þess í nafni íbúa Evrópusambandsins að ofbeldi stjórnvalda gegn öllum Írönum linnti umsvifalaust.

Hún nefndi nöfn nokkurra kvenna, tók upp stór skæri og klippti sítt hár sitt í ræðustóli frammi fyrir þingmönnum Evrópuþingsins. Hún lauk máli sínu með slagorði mótmælenda í Íran, „konur, líf, frelsi!“, og lyfti afklipptu hárinu á loft. 

Ali Khameini hvetur til áframhaldandi hörku

Abir Al-Sahlani segir það venju íranskra kvenna að skera hár sitt séu þær hryggar eða reiðar. Evrópuþingið var að ræða viðbrögð við mótmælunum sem hafa staðið frá því í síðasta mánuði, þegar Mahsa Amini lést eftir harkalega handtöku siðgæðislögreglu landsins.

Hún var ættuð frá Kúrdistan og var 22 ára en fulltrúum siðgæðislögreglunnar þótti slæða hennar ekki hylja hárið nægilega vel. Amini féll í dá við atlögu lögreglumannanna og lést þremur dögum eftir handtökuna.

Erkiklerkurinn Ali Khamenei staðhæfir að mótmælin séu runnin undan rifjum óvina Írans, einkum Bandaríkjanna og Ísraels. Hann hvatti í gær öryggissveitir til að halda hörðum aðgerðum sínum gegn mótmælendum áfram. 

Býst ekki við viðbrögðum

Abir Al-Sahlani gagnrýndi þingmenn Evrópuþingsins og sérstaklega Josep Borrell, utanríkismálastjóra Evrópusambandsins, fyrir dáðleysi gagnvart þeim þúsundum sem krafist hafa umbóta í lögum og stjórnkerfi Írans undanfarnar vikur.

Sænska ríkisútvarpið hefur eftir Abir Al-Sahlani að Borrell hafi gapað í forundran vegna orða hennar en að hún búist ekki við frekari viðbrögðum frá honum. Hins vegar hafi fjöldi viðstaddra faðmað hana að sér eftir ræðuna og þakkað henni hugrekkið.