Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Jón trassar mest að birta sína dagskrá

05.10.2022 - 16:45
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, hefur aðeins birt þrjár færslur með yfirliti úr dagskrá sinni á vef Stjórnarráðsins og sú sem birtist síðast náði frá lok mars til byrjun apríl. Ásmundur Einar Daðason, mennta-og barnamálaráðherra, hefur birt fleiri dagbókarfærslur en uppfærði síðast sína dagskrá fyrir dagana 25. til 29. apríl.

Hugmyndin að baki opinberri birtingu á dagskrám ráðherra var sú að auka gagnsæi. Þannig var stefnt að því að birta yfirlit yfir fundi ráðherra, viðburði og hverja ráðherra hitti eða ræddi við. Dagskrárnar eru unnar úr dagbókum ráðherra og metið hvað skuli birt og hvort ástæða sé til að birta eitthvað ekki. 

Nokkrir ráðherrar eru býsna duglegir að birta sína dagskrá. Til að mynda eru dagbækur þeirra Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, utanríkisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfisráðherra, uppfærðar reglulega. 

Hægt er að nálgast dagskrá Þórdísar frá því í síðustu viku og dagskrá Guðlaugs Þórs frá 26. til 30. september. Dagskrá Katrínar frá 19. til 25. september er aðgengileg á vef Stjórnarráðsins.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, stendur þessum þremur ráðherrum ekki langt að baki.  Dagskrá hans var síðast uppfærð fyrir dagana 19. til 23. september.

Aðrir ráðherra ríkisstjórnarinnar eru ekki jafn duglegir. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, uppfærði sína dagskrá síðast fyrir dagana 1. til 7. ágúst og Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, fyrir dagana 15. til 21. ágúst. 

Svo eru það þau Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmálaráðherra,  Lilja Alfreðsdóttir, menningar-og viðskiptaráðherra, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-og nýsköpunarráðherra. Guðmundur Ingi birti síðast dagskrá fyrir dagana 27. júní til 16. júlí.  Lilja birti síðast dagskrá sína fyrir dagana 4. til 10. júlí og Áslaug Arna fyrir dagana 27. júní til 3. júlí.

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, hefur ekki uppfært sína dagskrá síðan í lok maí en það eru þeir Ásmundur Einar Daðason, mennta-og barnamálaráðherra, og Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, sem reka lestina.  Ásmundur hefur birt 11 dagbókarfærslur og sú sem birtist síðast er fyrir dagana 25. til 29. apríl. 

Jón stendur Ásmundi síðan langt að baki. Hann hefur aðeins birt þrjár færslur um dagskrá sína. Sú síðasta er frá byrjun apríl. 

Fyrir tveimur árum kom fram í svörum ráðuneyta við fyrirspurn fréttastofu að stefnt væri að því að birta upplýsingar um dagskrá ráðherra reglulega en það gæti tafist af ýmsum ástæðum.