Innflytjendur láta að sér kveða í Vík

Mynd: RÚV / RÚV

Innflytjendur láta að sér kveða í Vík

05.10.2022 - 15:02

Höfundar

Íbúafjöldi í Vík í Mýrdal hefur hérumbil tvöfaldast á undanförnum áratug, þökk sé uppgangi í ferðaþjónustu. Fjölgunin er aðallega borin upp af innflytjendum en um helmingur íbúa í Mýrdalshreppi er af erlendu bergi brotinn. Á dögunum var sérstakt enskumælandi ráð sett á laggirnar í sveitarfélaginu, sem er skipað fólki frá sex löndum.  

Vík í Mýrdal er óvenjuvel í sveit sett gagnvart ferðaþjónustu; með heimsfrægar náttúruperlur á borð við Reynisdranga og hina viðsjárverðu Reynisfjöru í túnfætinum, hæfilega langt frá höfuðborginni og kjörinn áningarstaður á lengri ferðum á þjóðvegi númer eitt. Bærinn hefur enda stækkað ört frá því að ferðamenn tók að leggja leið sína til Íslands í massavís. „Íbúafjöldinn hefur nærri tvöfaldast á síðustu tíu árum og fyrirtækjum hefur fjölgað gríðarlega,“ segir Einar Freyr Elínarson, bæjarstjóri í Mýrdalshreppi. „Þótt hér búi 850 manns þá segir það bara hálfa söguna, því hér eru á hverjum tíma 4000-5000 manns. “  

Hinum öra vexti hafa óneitanlega fylgt vaxtaverkir. „Já, það hafa verið gríðarleg þensluáhrif á húsnæðismarkaði til dæmis. Fólk keppist um húsnæði, bæði einstaklingar og fyrirtæki. Nú er verið að reisa tólf íbúða fjölbýlishús, sem er eitt stærsta einstaka íbúðaverkefni sem hefur verið farið í hérna, og það er meiri uppbygging á íbúðamarkaði fram undan.“  

Kjósendur fjórfölduðust eftir rýmkun á kosningalögum

Fjölgunin í bænum er að langmestu leyti borin upp af innflytjendum og nú er svo komið að um helmingur íbúa er af erlendum uppruna. Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar voru kosningalög rýmkuð sem gerðu fleiri erlendum íbúum kleift að kjósa. Fjöldi íbúa sem höfðu kosningarétt í Mýrdalshreppi fjórfaldaðist. „Það setti svip sinn á kosningabaráttuna og þessi hópur var í stöðu til að hafa áhrif á stöðu mála og setja þau á dagskrá og það hefur svo sannarlega gerst.“

Mikilvægt að upplifa sig sem hluta af samfélaginu  

Eftir kosningar var ákveðið að stofna sérstakt enskumælandi ráð í bænum, sem Einar segir það fyrsta sinna tegundar hér á landi. Það er skipað fólki frá sex löndum. Formaður þess er Tomasz Chocholowicz, verslunarstjóri í Icewear, sem flutti hingað frá Póllandi að loknu háskólanámi árið 2015.   

„Þetta verkefni varð til að nauðsyn því erlendir íbúar, sem eru helmingur af íbúum, áttu sér enga málsvara hjá sveitarfélaginu. Að loknum kosningum fannst okkur kjörið að stofna nefnd eða ráð til að hjálpa innflytjendum að upplifa sig sem hluta af samfélaginu hér í Vík.“  

 Thomaz segir mikilvægt að fólk hafi rödd og finnist það ekki skilið út undan. „Það er mikilvægt því að útlendingar vita oft ekki hvað er í boði, hvar þeir geta búið. Hvar fæ ég vinnu? Hvað ef ég á barn? Kemst það í leikskóla? Hvar eru upplýsingarnar. Svo kemur ýmislegt upp, til dæmis hvernig megi bæta þjónustuna, hverjar eru væntingarnar. Flestir útlendingar sem koma eru ungt fólk og væntingar þess gerólíkar væntingum heimafólksins. “ 

Vantar hárskera og líkamsrækt

Fyrir tíu árum var einn veitingastaður í Vík, varla opinn um helgar. Í dag eru þeir fimmtán. En þrátt fyrir fjölgunina vantar enn ýmiss konar þjónustu. „Það vantar almennilega líkamsrækt, hárgreiðslustofu, snyrtistofu, fjölbreyttari verslun, betri póstþjónustu,“ segir Einar Freyr. „Þetta er búið að breytast svo ótrúlega hratt og ég held að fyrirtæki séu ekki búin að kveikja á því hvað það er góður rekstrargrundvöllur er hér.“ 

Fram undan eru innviðaverkefni á borð við byggingu nýs leikskóla og göng undir Reynisfjall, sem er ekki óumdeild framkvæmd, eru í umhverfismati. Einar segir að helstu áskoranirnar fram undan séu að byggja upp fjölbreyttara atvinnulíf, of mörg egg séu í einni körfu.  

„Við þurfum að fá fleiri og fjölbreyttari störf. Áskorunin er líka að búa til sjálfbæran og heilbrigðan íbúamarkað þar sem við erum með raunverulegt framboð af leiguhúsnæði, þannig að fólk sem vill dvelja hér áfram, eins og svo margir vilja, hafi kost á að komast í sjálfstæða búsetu og skapi eigin tækifæri.“

Tengdar fréttir

Ferðaþjónusta

Áttu ekki von á öllum íslensku ferðamönnunum