Hundar koma að góðum notum við vatnaleit á Íslandi

Mynd: RÚV / RÚV

Hundar koma að góðum notum við vatnaleit á Íslandi

05.10.2022 - 07:30

Höfundar

„Veðuraðstæðurnar hérna heima gefa okkur í raun og veru dálítið stærri glugga á að vinna með hunda sem eru þjálfaðir á að finna mannalykt,” segir Björk Arngrímsdóttir, hundaþjálfari.

Landinn leit við á æfingu hjá Björgunarhundasveit Íslands. „Af því það er svo kalt hérna, í sjóm og vatni á Íslandi, að það gefur okkur aðeins lengri glugga sem við ættum klárlega að nýta okkur.” 

Það er ekki langt síðan byrjað var að nota hunda við vatnaleitir á Íslandi. „En höfum alltaf verið að nota hunda svona við og við í vatnaleit. Með bara fínum árangri. Þá byrjum við alltaf að reyna labba framhjá ströndu eða eitthvað, þegar við sjáum að þeir eru búnir að taka einhverja lykt þá fáum við báta til þess að koma og taka okkur upp. Förum svo hérna út á vatnið, sjóinn eða hvað sem það er og notum hundana aftur. Siglum bátnum upp í vindinn og reynum að sjá hvar hundarnir eru að taka upp lykt og látum þá setja upp þá punkta.“

Björk segir mikil tækifæri liggja í þessu. „Þetta er þess eðlis að það er ekkert alltaf sem við getum, af því fólk er undir vatni eða í sjó, það getur verið svolítið erfitt að staðsetja fólk og þá eru hundarnir mjög góðir í því. Þetta svipar kannski svolítið til snjóflóðaleitar þar sem fólk er ekki sýnilegt. Kafararnir þurfa að vita hvar þeir eiga að kafa. Það er alveg frábært tækifæri til að nota hundana að minnka radíusinn þeirra.“

Leitarhundar hafa lengi verið þjálfaðir í víðavangs og snjóflóðaleit. „Við erum að hugsa okkur til hreyfings. Við erum að reyna að finna út hvernig best megi gera þetta þannig þetta sé á sama standard og víðavangsleitin og snjóflóðaleitin hjá okkur.”

Litið er til Írlands í þessum málum. „Við vorum nýlega í sambandi við Íra sem eru að sýna alveg ofboðslega flottan árangur með leitarhunda. Það er gífurlega mikill árangur sem þeir eru að sýna. Okkur langar dálítið að fá að kafa aðeins inn í hausinn á þeim varðandi þetta. Við erum að fá þá væntanlega til landsins, það er allavega draumurinn.”