Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Haraldur Þorleifsson gefur út plötu

05.10.2022 - 16:33
Haraldur Þorleifsson hvatamaður Römpum upp Ísland og Römpum upp Reykjavík
 Mynd: Bragi Valgeirsson
Þegar Haraldur Þorleifsson seldi fyrirtækið sitt í fyrra varð hann einn ríkasti Íslendingurinn. Hann notar peningana í ýmis verkefni. Til dæmis Römpum upp Ísland, sem byggir rampa fyrir hjólastóla úti um allt land. Núna er Haraldur að búa til tónlist og ætlar að gefa út plötu.

Mjög erfitt þegar mamma hans dó

Haraldur er frá Reykjavík. Hann ólst upp í Vesturbænum. Þegar hann var 11 ára dó mamma hans í bílslysi. Hún hét Anna Jóna. Þetta var mjög mikið áfall fyrir Harald. Hann segir að mamma hans hafi verið eins og margar aðrar mömmur: besta mamma í heimi.

Þótt það séu meira en 30 ár síðan mamma Haraldar dó finnst honum það enn þá erfitt. Bráðum ætlar hann að opna kaffihús sem heitir í höfuðið á mömmu hans, Anna Jóna.

Leyfir sjúkdómnum ekki að stjórna sér

Haraldur er með vöðva-rýrnunar-sjúkdóm. Þess vegna er Haraldur smám saman að missa máttinn í líkamanum. Haraldur hefur notað hjólastól í næstum 20 ár. Sjúkdómurinn verður smám saman verri.

Haraldur vill samt ekki að sjúkdómurinn stjórni því hvernig hann lifir lífinu. Hann hefur gert margt sem hann langaði til án þess að hugsa um sjúkdóminn. Hann hefur til dæmis stofnað fyrirtæki. Þegar hann seldi fyrirtækið eignaðist hann mjög mikla peninga.

Er aftur byrjaður að búa til tónlist

Núna er Haraldur að búa til tónlist. Hann semur lög og syngur þau. Hann ætlar fljótlega að gefa út plötu. Hún heitir The Radio Won’t Let Me Sleep. Það þýðir: útvarpið leyfir mér ekki að sofa.

Haraldur bjó til tónlist þegar hann var ungur. Svo hætti hann því í langan tíma. Núna er hann aftur byrjaður að búa til tónlist. Hann gerir það líka til að minnast mömmu sinnar. Hann kallar sig nefnilega Önnu Jónu Son þegar hann gerir tónlist. 

Reynir að hugsa ekki of mikið um plötuna

Sigurður Guðmundsson úr hljómsveitinni Hjálmum gerir tónlistina með Haraldi. Sigurður er spenntur að heyra hvað fólki finnst um tónlistina. Hann segir að Haraldur hafi sérstaka og heillandi rödd.

Haraldi finnst samt dálítið erfitt að leyfa öðrum að heyra tónlistina sína. Hann segir að það sé afhjúpandi. Það þýðir að þá sér fólk hvernig hann er í alvörunni. Og getur dæmt hann fyrir það. Þess vegna segist Haraldur sjálfur reyna að hugsa ekki of mikið um það. 

Það var talað við Harald Þorleifsson í þættinum Kveik í gær. Viðtalið er í seinnihluta þáttarins. Það má sjá þáttinn hér.

Atli Sigþórsson
málfarsráðunautur