Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fólk svikið um nær 200 milljónir á netinu í ár

05.10.2022 - 21:34
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Fjársvikamálum fer fjölgandi milli ára. Á árinu hefur fólk verið svikið um samtals nærri 200 milljónir í gegnum netið. Þolendur í netsvikum eru í níutíu prósentum tilvika yfir fimmtugt. 

Fullt var út úr dyrum á fundi hjá Félagi eldri borgara í dag um netöryggi sem bar yfirskriftina: Ratað um frumskóginn. „Maður hefur stundum á tilfinningunni að maður fylgi ekki með, þetta eru svo hraðar breytingar,“ segir Gunnhildur Skaftadóttir, ein þeirra sem sótti fundinn.

Þörf á fræðslu

Eldri borgarar verða oftar en aðrir fyrir barðinu á svikahröppum, af þeim sem hafa lent í fjársvikamálum frá 2017 eru rúmlega 52% þeirra eldri en 67 ára. Tæplega 40% á milli 50-66 ára og 8% yngri en fimmtugt.

„Við sjáum það að það er mikil þörf á fræðslu fyrir þennan hóp. Okkar helsta forvörn gegn fjársvikum er fræðsla og að tala meira um hlutina, því meira sem við tölum um þetta því meira er fólk varkárara á netinu,“ segir Brynja María Ólafsdóttir, sérfræðingur í regluvörslu Landsbankans.

Tilkynningum fjölgað um rúmlega 400

Tilkynningum um fjársvik á netinu hefur fjölgað milli ára, í ár hafa 1191 tilkynningar borist lögreglunni, samanborið við rúmlega 770 allt árið í fyrra. Í sumar fór að bera á netsvikum í gegnum Facebook og samskiptaforritið Messenger. Bankar og kortafyrirtæki vöruðu við svikahröppum sem tóku yfir samfélagsmiðlaaðgang fólks, sendu vinum þeirra skilaboð og báðu um símanúmer, greiðslukortaupplýsingar og auðkennisnúmer.

Samkvæmt tölum frá lögreglunni er heildartjón þessara tæplega 1200 mála í ár 190 milljónir. Eitt stórt mál berst lögreglunni í hverri viku, meðaltjón hvers máls eru rúmar 6,7 milljónir. „Mikilvægasta er að sjálfsögðu að þú afhendir aldrei kortaupplýsingarnar til þriðja aðila og þú hleypir aldrei neinum inn á tölvuna þína,“ segir Brynja María.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV