Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ef Credit Suisse fellur yrðu áhrifin takmörkuð hér

05.10.2022 - 22:00
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Seðlabankastjóri telur ólíklegt að svissneski stórbankinn Credit Suisse falli, hann sé með sterkan bakhjarl. En ef svo færi yrðu áhrifin hér á landi takmörkuð enda sé staða Íslands allt önnur en hún var. 

Staða svissneska bankans Credit Suisse, sem stofnaður var 1856 og er einn stærsti banki heims, hefur valdið óróa á fjármálamörkuðum. Hlutabréfaverð í bankanum hefur hríðlækkað síðustu misseri og bankinn áformar fjöldauppsagnir. Greinendum þykir atburðarásin minna óþægilega á aðdragandann að hruni Lehman Brothers árið 2008. Röð uppljóstrana og vandræðamála hefur reynst bankanum erfið. Alþjóðlega stöðugleikaráðið  metur bankann kerfislega mikilvægan fyrir heimshagkerfið.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri telur ólíklegt að bankinn falli enda hafi hann Sviss að baki sér og þótt bankinn sé í verulegum vandræðum séu þau ekki þess eðlis að bankinn falli eins og staðan er núna. 

„Áhrifin hér af falli þessa banka eru takmörkuð, ég held að þessi banki tengist ekki Íslandi að engu leyti. Hins vegar ef það verður fjármálaóróleiki úti þá kann það að hafa áhrif hér, kann að leiða til þess að bæði að það verði meiri úti sem hefði áhrif hérna heima og líka til þess að það verði erfiðara fyrir íslenska aðila að fjármagna sig úti.“

Hann segir hins vegar stöðu Íslands allt aðra en hún var, við skuldum nánast ekkert í útlöndum, þvert á móti eigum við peninga í útlöndum ef eignir lífeyrissjóðanna eru teknar með. Ísland sé því ekki eins háð erlendum fjármálamörkuðum og áður og nánast engir erlendir aðilar inni á íslenskum verðbréfamarkaði sem gætu flúið markaðinn eða eitthvað slíkt.

„Við erum búin að byggja upp varnargirðingar í kringum landið, það hefur verið fókus okkar hér síðustu tíu til fimmtán árin og þær halda.“