Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Byssumenn myrtu mexíkóska móður í leit að dóttur sinni

05.10.2022 - 07:04
epa09700986 Police guard the entrance of the Xcaret hotel in the resort of Cancun, state of Quintana Roo, Mexico, 21 January 2022. One person is dead and two injured, all of Canadian origin, during a shooting that occurred inside a hotel located in the Mexican resort of Playa del Carmen, official sources reported.  EPA-EFE/Alonso Cupul
 Mynd: EPA - RúV
Mexíkósk kona sem leitað hefur dóttur sinnar sem hvarf í fyrra var myrt í gær. Fjöldi fólks hefur verið myrtur Mexíkó í leit að horfnum ættingjum sínum undanfarin misseri og ár.

Móðirin, Esmeralda Gallardo að nafni, var í aðgerðahópnum Raddir hinna horfnu sem krefur stjórnvöld um aðgerðir við að upplýsa ótalmörg mannshvörf í Mexíkó.

Gallardo var skotin til bana á leið til vinnu í borginni Puebla og samkvæmt fréttum mexíkóskra miðla stökkti árásarmaðurinn með skothríð því fólki á flótta sem hugðist liðsinna henni.

Dóttirin, Betzabe Alvarado, hvarf í janúar í fyrra en hún var þá 22 ára. Síðasta sást til hennar á svæði þar sem mansalsgengi ráða ríkjum. Síðan þá hefur móðir hennar leitað hennar ákaft og sagði í samtali við fréttavef í Puebla að henni hlyti að hafa verið rænt.

Gallardo kvaðst aldrei ætla að gefast upp á leitinni. Á annað hundrað þúsund manns er saknað í Mexíkó en fjöldi ættingja horfinna hefur verið myrtur. Yfirvöld segjast staðráðin í að komast á snoðir um hvort morðið á Gallardo tengist leitinni að dóttur hennar.