Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ætlar að láta áfengi eiga sig fram til 25 ára aldurs

05.10.2022 - 16:31
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnhildur Kjerúlf Birgisdótti - RÚV
Vímuefnaneysla grunnskólanema hefur hríðfallið síðasta aldarfjórðunginn. Andlegri heilsu hefur hins vegar hrakað og er talið að skortur og svefnleysi spili þar inn í. Nemandi í níunda bekk í Austurbæjarskóla segist ætla að láta áfengi eiga sig alla vega til 25 ára aldurs þegar heilinn er fullþroskaður. Samnemendur hans segja mikilvægt að hafa hemil á skjánotkun þótt að það geti reynst erfitt.

Forvarnardagurinn er haldinn í dag í mörgum grunn- og framhaldsskólum landsins. Málþing vegna dagsins var haldið í Austurbæjarskóla, þar sem farið var yfir árangur sem náðst hefur í forvörnum og það sem betur má fara. 

Mjög dregur úr áfengis- og vímuefnanotkun

Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu, og þekkingarstjóri hjá Planet Youth, segir að forvarnir síðustu ár hafi skilað miklum árangri varðandi vímuefnaneyslu ungmenna. Árið 1998 höfðu 42 prósent nemenda í tíunda bekk orðið ölvuð einu sinni eða oftar síðastliðna þrjátíu daga. Við síðustu mælingar hjá Rannsóknum og greiningu í febrúar 2022 var hlutfallið komið niður í fimm prósent. Hlutfall ungmenna sem reykja og hafa prófað kannabis hefur líka minnkað verulega.

„Þannig að við höfum náð ótrúlegum árangri á þessu 22 ára tímabili, þar sem við höfum verið að vinna eftir þessu sem við köllum íslenska forvarnarmódelið, þar sem við erum að huga að verndandi þáttum og reyna að draga úr áhættuþáttum í lífi barna og ungmenna.“

Foreldrar mikilvægastir í forvörnum

Hún segir foreldra og forráðamenn það mikilvægasta í forvörnum. Það sé ekki nóg að bjóða upp á samveru heldur þurfi ef til vill að skoða hvers konar samvera það er. Hvort hægt sé að gera betur, með því til dæmis að leggja frá sér tölvur og síma. Skipulagt íþrótta- og tómstundastarf skipti líka miklu máli, sem og almenn vellíðan innan og utan skóla, auk jafningjahóps. 

Mælingar sýna að andlegri líðan ungmenna hefur hrakað. Þar skipta atriði eins og svefn miklu máli. 

„Við tengjum þetta við svefn, að sofa ekki nóg. Við tengjum þetta alveg klárlega við skjátíma og þá kannski sérstaklega samfélagsmiðlanotkun hjá stelpum.“

Margrét Lilja segir lakari andlega líðan líka tengjast því að upplifa skort eða einelti. Andlegri líðan virðist líka hafa hrakað í kjölfar heimsfaraldurs.

Seinka eða sleppa áfengisneyslu

Míó Magnason, Starkaður Björnsson og Sigrún Æsa Pétursdóttir, nemendur í níunda bekk, voru meðal þeirra sem tóku þátt í málþinginu í Austurbæjarskóla. Þau hafa öll ákveðið að seinka því að byrja að neyta áfengis - eða sleppa því alveg.

Starkaður ætlar að láta áfengi, og aðra vímugjafa, alveg eiga sig að minnsta kosti fram að 25 ára aldri. „Það eru bara rannsóknir sem sýna að við 25 ára aldur þá hættir heilinn að þroskast,“ segir Starkaður. „Og þá getur maður virkilega tekið ákvörðun bara fyrir sig, hvað maður vill gera. Ef maður vill drekka af og til. En ég spái því nú ekki að ég fari í einhverja mikla neyslu. “

Aðspurður var Míó ekki í vafa um hvað virkar best þegar kemur að forvörnum. „Eyða tíma með fjölskyldunni. Það er bara númer eitt sko.“

Sigrún Æsa leggur líka áherslu á mikilvægi þess að vera í skipulögðu tómstundastarfi. „Maður er einhvern veginn miklu skipulagðari með allt og með námið og allt saman. Og það er bara númer eitt, tvö og þrjú finnst mér.“

Neysla á orkudrykkjum hefur aukist meðal ungmenna. Starkaður segist ekki koma nálægt slíkum drykkjum. „Alls, alls ekki. Og persónulega finnst mér að slík neysla á þessum aldri sé bara hátt í rugl.“

Þremenningarnir eru sammála um að minnka þurfi skjánotkun ungmenna. Þau kannast sjálf við að eiga stundum erfitt með það, en gera sitt besta.
 

Gunnhildur Kjerúlf Birgisdóttir
Fréttastofa RÚV