Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Yfir 100 fórust í Flórída

04.10.2022 - 04:14
epa10220124 A view of the bay mobile park in San Carlos Island after the pass of the hurricane Ian in Fort Myers Beach, Florida, USA, 02 October 2022. The category 4 storm made land fall 28 September causing widespread damage and power outages.  EPA-EFE/CRISTOBAL HERRERA-ULASHKEVICH
Lee-sýsla varð einna verst úti þegar fellibylurinn Ian gekk á land í Flórída, ekki síst smábærinn Fort Myers Beach, sem er á lítilli eyju skammt frá sýsluhöfuðborginni Fort Myers. Þar er nánast hvert hús ónýtt.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfirvöld í Flórída í Bandaríkjunum greindu frá því í gær að þar hefðu yfir 100 manns farist af völdum fellibylsins Ians í liðinni viku. Bandaríska fréttastöðin CNN greinir frá þessu og segir minnst 101 dauðsfall hafa verið rakið til fellibylsins, sem hamaðist á Flórída frá miðvikudegi fram á föstudag og skildi eftir sig slóð eyðileggingar hvar sem hann fór.

54 dóu í Lee-sýslu

Minnst 54 fórust í Lee-sýslu, sunnarlega á vesturströnd Flórídaskagans, sagði fógetinn Carmine Marceno á mánudag.  Í Charlotte-sýslu hafa 24 dauðsföll verið rakin til veðurofsans með beinum eða óbeinum hætti, átta í Collier-sýslu og fimmtán til viðbótar í átta sýslum öðrum. Drukknun er algengasta dánarorsökin. Að auki fórust fjögur í Norður-Karólínuríki og tveir menn á Kúbu þegar bylurinn fór þar yfir.

Yfir 1.600 bjargað og hálf milljón enn án rafmagns

Ríflega 1.600 manns hafði á sunnudag verið bjargað úr lífshættulegum aðstæðum þar sem fárviðrið geisaði í suðvestanverðu og miðju Flórídaríki, samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu ríkisstjórans Ron DeSantis.

Rafmagn fór af milljónum heimila og fyrirtækja í storminum og nær 500.000 notendur voru enn án rafmagns í Flórída að kvöldi mánudags, segir í frétt CNN. Í Fort Myers Beach, smábæ á lítilli eyju skammt frá borginni Fort Myers þar sem björgunar- og leitarlið er enn að störfum í húsum og húsarústum, er ekki búist við að rafmagn komist á fyrr en eftir mánuð eða svo.

Aðgengi að hreinu vatni er líka takmarkað eftir hamfarirnar og er fólki á yfir 100 stöðum í ríkinu ráðlagt að sjóða allt vatn fyrir neyslu.