Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Trump stefnir CNN fyrir meiðyrði og krefst milljarða

epa10218849 Former US President Donald Trump addresses the crowd at a Save America rally at the Macomb Community College, Sports & Expo Center in Warren, Michigan, USA, 01 October 2022. Trump is holding rallys for congressional candidates he supports in the run-up to the mid-term elections.  EPA-EFE/JOSE JUAREZ
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti hefur höfðað meiðyrðamál á hendur bandarísku fréttastöðinni CNN. Málið var höfðað fyrir alríkisdómstól í Fort Lauderdale í Flórída á mánudag. Í málsskjölum kemur fram að Trump krefjist 475 milljóna dollara skaðabóta frá CNN, jafnvirði nær 69 milljarða króna.

Samkvæmt frétt Der Spiegel fullyrðir Trump að CNN hafi rekið ófrægingarherferð gegn sér og grafið undan sér á stjórnmálasviðinu.

Þetta segja lögmenn Trumps að sjónvarpsstöðin hafi gert með ótal meiðandi og niðrandi lýsingum á forsetanum, svo sem með því að nota um hann orð og hugtök á borð við rasista, rússadindil og uppreisnarmann og jafnvel líkt honum við Hitler.

Ekkert lát á óhróðrinum

Í stefnunni segir enn fremur að ekkert lát hafi orðið á þessari háttsemi stöðvarinnar, sem hafi þvert á móti bætt í óhróðurinn síðustu mánuði, „vegna þess að CNN óttast að [Trump] bjóði sig fram í forsetakosningunum 2024.“