Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Meiri stemning fyrir ljóðum hjá lesendum en útgefendum

Mynd: Birta Sveinbjörnsdóttir / Aðsend

Meiri stemning fyrir ljóðum hjá lesendum en útgefendum

04.10.2022 - 13:15

Höfundar

Ljóðskáldið, teiknimyndasöguhöfundurinn og grafíski hönnuðurinn Elín Edda Þorsteinsdóttir sendi nýlega frá sér ljóðabókina Núningur. Hún gaf bókina út á eigin vegum og segir erfitt að fá ljóðahandrit birt. „Mér finnst eins og það sé ekki mikil stemning hjá útgáfum fyrir ljóðum en meiri hjá lesendum.“

Ljóðabókin Núningur eftir hina fjölhæfu Elínu Eddu Þorsteinsdóttur kom út nýlega. Elín Edda er kona margra hatta og skrifaði ekki aðeins bókina heldur gaf hana út sjálf hjá útgáfu sinni Nóvember og hannaði þar að auki kápu bókarinnar. Elín Edda hefur hannað fjölmargar bókarkápur og tímarit en segir allt annað að hanna kápu sinnar eigin bókar. „Ég komst eiginlega að því að það er miklu erfiðara að hanna fyrir sig sjálfan heldur en fyrir aðra. Ég held að það sé kannski ekki gott að vita of mikið um innihaldið, að tengjast því of vel. Þannig að það var alveg mikill hausverkur að finna þetta.“ Rætt var við Elínu Eddu í Orðum um bækur á Rás 1.  

Ljóð á þvælingi í öllu 

Elín Edda lærði grafíska hönnun áður en hún lagði stund á meistaranám í ritlist. Hún sameinar gjarnan þetta tvennt í verkum sínum, hið sjónræna í hönnun og teikningum og svo hið ljóðræna. „Ég held að þetta sé svolítið kjarninn í því sem að ég geri, ljóðin. Eins og í myndasögunum þá finnst mér mikilvægt að það sé eitthvað ljóð á þvælingi í sögunni,“ útskýrir Elín Edda. Hún segir að ljóð séu góð æfing í að fá hugmynd og í að meta hlutina út frá ólíkum sjónarhornum.  

Núningur er önnur ljóðabók Elínar Eddu en áður kom út bókin Hamingjan leit við og beit mig í ljóðaflokki Meðgönguljóða sem kom út á vegum bókaútgáfunnar Partusar. Hún hefur sent frá sér nokkrar teiknimyndasögur, meðal annars um furðuveruna Gombra og bókina Glingurfugl sem gerist í töfraheimi Gombra. Myndasögurnar hafa komið út hjá smáforlögum og nýjasta bók hennar er sjálfútgefin á forlagi hennar Nóvember. Elín Edda segir að það geti reynst erfitt að fá ljóðabækur útgefnar. „Mér finnst eins og það sé ekki mikil stemning hjá útgáfum fyrir ljóðum en meira hjá lesendum.“ 

Mynd: Birta Sveinbjörnsdóttir / Aðsend
Upptaka frá útgáfuhófi bókarinnar Núningur

Viðhald heimilisins tengir allt saman  

Bókinni Núningur er skipt upp með sjónrænum hætti. Sex svokölluð iðnaðarljóð birtast lesendum á svörtum grunni og skipta þau bókinni í jafn marga kafla. Kveikjuna að iðnaðarljóðunum segir Elín Edda að hafi komið í ljóðaáfanga í ritlist við Háskóla Íslands. „Við kærastinn minn vorum að gera upp íbúð og ég gat lítið hugsað um annað en hús og hvernig þetta er svo mikið af lúmskum verkefnum sem tengjast því að búa einhvers staðar,“ útskýrir hún.  

Mynd: Birta Sveinbjörnsdóttir / Aðsend
Elín Edda les ljóð úr bók sinni Núningur

Í hugleiðingum Elínar um viðhald heimilisins birtast margvíslegar myndhverfingar fyrir lífið. Iðnaðarljóðin urðu til nokkru á eftir öðrum ljóðum í bókinni. „Þetta varð til á mjög löngum tíma. Þessi iðnaðarljóð eru nýrri en sum ljóðin en svo sá ég þessa tengingu og hugsaði að það væri gott að raða þeim svona upp af því að svo eru önnur þemu líka sem koma í hinum köflunum sem tengjast óbeint iðnaðinum.“ 

Elín Edda veltir í bókinni upp alls kyns öðrum túlkunum á hversdagslegum orðum og fyrirbærum. Hún staldrar við hugtök eins og mæri, myndir, form, fararsnið og guðir, sem eru allt titlar á ljóðum í bókinni. Hún hægir á og veltir upp ólíklegustu hliðum á þessum hugtökum. „Það eru mörg ljóð sem eru að leika á skynjunina og taka ólíklegt sjónarhorn á hluti,“ segir Elín. „Mér finnst það vera hluti af viðnámi að vera ekki að taka öllu sem sjálfsögðu og að efast um hugtök.“  

Rætt var við Elín Eddu í Orðum um bækur á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.  

Tengdar fréttir

Menningarefni

Absúrd og hillarius harmsaga

Bókmenntir

Myndasaga innblásin af Kommúnistaávarpinu

Bókmenntir

Gombri heitir persóna í teiknimyndasögu