Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Margar skotárásir „hreinar aftökur“

04.10.2022 - 06:20
Mynd með færslu
 Mynd: Blåljusbilder - SVT
Fjórir táningar hafa verið handteknir í tengslum við rannsókn lögreglu á tveimur mannskæðum skotárásum í sænsku borginni Södertälje um helgina. Lögreglustjóri líkir árásunum við aftökur og hefur áhyggjur af ungum aldri hinna grunuðu.

Karlmaður á þrítugsaldri var skotinn til bana í Södertälje, um 70.000 manna útborg Stokkhólms, á föstudagskvöld. Annar maður, rétt liðlega fertugur, var myrtur nánast á sama stað á laugardagskvöld. Fjórir drengir á táningsaldri hafa verið handteknir, grunaðir um morðin.

Hvers vegna velur svo ung manneskja að fremja morð?

Í allt voru framdar fjórar skotárásir í Södertälje á rúmri viku, sem allar eru raktar til gengjastríðs sem geisað hefur í Svíþjóð um margra ára skeið. Mats Löfving, lögreglustjóri Stokkhólmslögreglunnar, segir marga af höfuðpaurum glæpagengjanna sem og enn fleiri morðingja úr þeirra röðum hafa verið handtekna á síðustu 13 árum og sitja enn inni.

Það sem veldur honum mestum áhyggjum, sagði Löfving í fréttaskýringaþættinum Aktuellt í sænska ríkissjónvarpinu, er mikil fjölgun kornungs fólks í röðum glæpagengjanna. „Hvers vegna velur svo ung manneskja að gerast morðingi?“ spyr lögreglustjórinn, „það er lykilspurning.“

Allt niður í átta ára börn

Hann segir gengin ganga fram af fádæma ákefð og ófyrirleitni við nýliðun og sækja fast í að véla börn og unglinga í sínar raðir með ýmsum ráðum. Dæmi séu um að börn allt niður í átta ára aldur séu lokkuð til liðs við þau. Börnin séu beðin að geyma eða sendast með fíkniefni eða á útkikki eftir lögreglu fyrir gengin. „„Þú færð flottan I-phone í staðinn.“ Þannig byrja þau að flækjast í skipulagða glæpastarfsemi,“ segir lögreglustjórinn. 

Fleiri byssumorð en nokkru sinni og mörg þeirra hreinar aftökur

50 manns hafa verið skotnir til bana í Svíþjóð það sem af er þessu ári, fleiri en nokkru sinni fyrr, þar af 20 í umdæmi Stokkhólmslögreglunnar. Löfving segir banvænum árásum ekki hafa fjölgað í Stokkhólmi, Gautaborg og Malmö, þær séu vissulega of margar en fjölgunin sé í meðalstórum borgum landsins. Það þýði að ofbeldið sé að breiðast út, sem sé afar slæmt.

Hann bendir líka á að þótt skotárásum hafi fækkað milli ára og þeim hafi líka fækkað sem særist í slíkum árásum hafi banvænum skotárásum fjölgað á sama tíma. „Og það túlkum við svo, að þetta séu hreinar aftökur,“ segir Löfving.