Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fylgi við Brasilíuforseta verulega vanmetið

Mynd: EPA-EFE / EPA-EFE
Skoðanakannanir í Brasilíu vanmátu fylgi Jairs Bolsonaros forseta í kosningunum í gær. Mótframbjóðandi hans fékk fleiri atkvæði, en ekki hreinan meirihluta eins og sumar kannanir gáfu til kynna.

Mikill fögnuður ríkti meðal stuðningsmanna Luiz Inácios Lula da Silva, fyrrverandi forseta, eftir að í ljós kom að hann hafði hlotið flest atkvæði í kosningunum, rúmlega 48 prósent atkvæði á móti rúmlega 43 prósentum Bolsonaros forseta.

Lula þakkaði stuðningsfólki sínu aðstoðina síðastliðna þrjá mánuði og bætti við að hann hefði aldrei náð að tryggja sér sigur í forsetakosningum í fyrri umferðinni. Það væru örlög sín að þurfa að hafa fyrir því verða forseti.

Skoðanakannanir voru lygar

Bolsonaro sagði þegar hann ávarpaði fréttamenn að niðurstaða gærdagsins sýndi að margir hefðu áhyggjur af verðhækkunum á nauðsynjavörum að undanförnu og vildu breytingar. En ýmsar breytingar gætu orðið til hins verra.

„Við flettum í dag ofan af lygum Datafolha,“ það er óháðri kosningarannsóknarstofnun í Brasilíu, „sem sagði að úrslitin yrðu 51 prósent gegn þrjátíu og einhverju,“ sagði Bolsonaro og bætti við: „Seinni helmingurinn er eftir og báðir standa jafnt. Við ætlum að sýna brasilísku þjóðinni, sérstaklega þeim sem hafa það verst, að það getur haft afleiðingar að sitja heima. Við förum yfir efnahagsmálin, afleiðingar stríðsins í útlöndum og fleira. Við þurfum að koma því á framfæri að breytingarnar sem sumir vilja gætu orðið til hins verra.“

Alvarlegt ástand

Ástandið í Brasilíu hefur versnað til muna síðastliðin ár. Þjóðin fór illa út úr COVID-19 farsóttinni sem Jair Bolsonaro er sakaður um að hafa gert lítið úr og vanmetið með öllu afleiðingar hennar. Verðbólga og atvinnuleysi eykur mjög á erfiðleika Brasilíumanna og þá er forsetinn sakaður um að umgangast Amazon regnskóganna glannalega, hin svokölluðu lungu heimsins. Einnig saka pólitískir andstæðingar hans hann um spillingu og að virða lýðræðislegar leikreglur að vettugi.

Vongóðir stuðningsmenn Lula

Stuðningsmenn Lula virðast næsta vissir um að þeirra maður sigri í síðari umferðinni. Guido Mantega, fyrrverandi fjármálaráðherra í ríkisstjórn Lula, benti á það í fréttaþættinum Newsday hjá BBC, að Lula hefði sigrað í fjórtán ríkjum Brasilíu og Bolsonaro í tólf. Eftirleikurinn ætti því eftir að verða auðveldur.

Ellefu buðu sig fram í forsetakosningunum í gær, en einungis Lula og Bolsonaro fengu umtalsvert fylgi. Simone Tebet, frambjóðandi miðjumanna, lenti í þriðja sæti með fjögurra komma tveggja prósenta fylgi. Guido Mantega telur að Lula eigi stuðning hennar vísan og fái þar með atkvæðin sem hún fékk. Fleiri fréttaskýrendur eru á sama máli. Hún lýsi að líkindum fljótlega yfir stuðningi við Lula og eigi jafnvel von á ráðherraembætti í ríkisstjórn hans fari svo að hann sigri í síðari umferð kosninganna sunnudaginn 30. október. Þá þykir líklegt að hann fái flest atkvæði stuðningsmanna Ciros Gomes, sem hafnaði í fjórða sæti með þriggja prósenta stuðning, þótt Gomes lýsi ekki yfir stuðningi við hann. Aðrir frambjóðendur fengu innan við eitt prósent atkvæða.

Úrslitin ekki ráðin fyrirfram

Ekki eru allir þeirrar skoðunar að vinstrimaðurinn Lula eigi sigur vísan í síðari umferðinni. Þeirra á meðal er Kristian Almblad, fréttamaður danska ríkisútvarpsins DR í Brasilíu. Að hans mati standa frambjóðendurnir jafnt að vígi eftir fyrri umferðina í gær. Hann segir að frammistaða Bolsonaros sýni að bolsonarisminn lifi enn þá góðu lífi. Stuðningsmenn forsetans séu bæði undrandi og glaðir yfir því hve fylgi hans var rangt mælt í skoðanakönnunum undanfarnar vikur og mánuði.

Almblad bendir á að Bolsonaro hafi sigrað í Sao Paulo-ríki, því langfjölmennasta í Brasilíu og að stuðningsmenn hans hafi margir hverjir fengið góða kosningu í þing- og ríkisstjórakosningunum í gær. Anthony Ferrera, sérfræðingur í málefnum ríkja í Rómönsku Ameríku, telur að hann eigi að sumu leyti á brattann að sækja.

Ferrera vekur á því athygli að í þremur stærstu ríkjum Brasilíu, það er Ríó, Sao Paulo og Mines eigi Lula ekki stuðning stjórnvalda vísan. Þar verði stjórnir við völd sem séu hallar undir Bolsonaro og skoðanabræður hans.

Af alefli í kosningabaráttuna

Kristian Almblad hjá danska ríkisútvarpinu telur að úrslit gærdagsins gefi Bolsonaro tilefni til að hella sér af alefli út í kosningabaráttuna næstu fjórar vikur. Fyrir fyrri umferðina einkenndist hún aðallega af því að frambjóðendurnir kölluðu hvor annan ýmsum ónöfnum. Lula útmálaði Bolsonaro sem brjálæðing og Bolsonaro sagði að Lula væri þjófur. Að mati fréttaskýrenda verður tónninn svipaður fyrir síðari umferðina á kostnað þess að frambjóðendurnir ræði lausnir á ærnum vanda brasilísku þjóðarinnar.