Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Beiðni um fjöldahjálparstöð kom í gærkvöldi og í morgun

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Viðbúið er að flestir flóttamenn sem munu gista í fjöldahjálparstöð Rauða krossins í Borgartúni komi frá Úkraínu. Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða krossins, segir að beiðni hafi komið frá stjórnvöldum í gærkvöldi og í morgun um að opnuð verði fjöldahjálparstöð. Unnt verður að taka á móti fyrsta fólkinu í kvöld.

Fjöldahjálparstöðin er í skrifstofuhúsnæði við Borgartún sem áður hýsti Vegagerðina. Þangað geta allir umsækjendum um alþjóðlega vernd komið.

„Hér erum við að opna fjöldahjálparstöð fyrir flóttafólk sem er að koma til landsins. Ástæðan er sú að það er skortur á úrræðum á vegum hins opinbera. Rauði krossinn hefur verið beðinn um að koma og opna úrræði fyrir allt að 100 til 150 manns sem við gerum á grundvelli okkar stoðhlutverks við stjórnvöld. Hér er áformað að fólk geti verið í allt að þrjá sólarhringa þar til það fer í önnur húsnæðisúrræði á vegum stjórnvalda eða sveitarfélaga,“ segir Atli. 

Hverjir koma hingað?

„Það eru umsækjendur um alþjóðlega vernd sem koma til landsins. Það má búast við því að meirihlutinn verði frá Úkraínu en einnig öðrum löndum,“ segir Atli.