Alþjóðleg hornsílaráðstefna á Íslandi í fyrsta sinn

Mynd: RÚV / RÚV

Alþjóðleg hornsílaráðstefna á Íslandi í fyrsta sinn

04.10.2022 - 07:30

Höfundar

Við Háskólann á Hólum í Hjaltadal í Skagafirði eru stundaðar rannsóknir á hornsílum og þar var haldin tíunda alþjóðlega hornsílaráðstefnan sem sótt er af vísindamönnum víða að úr heiminum. Alls voru þátttakendur um sextíu.

Einhverjum kann að finnast mikið í lagt að halda svona stóra ráðstefnu um jafn lítinn fisk en það er svo sannarlega um nóg að ræða enda leyna hornsílin á sér. 

„Hornsílin eru mjög félagslyndir fiskar, þvælast um allt og við nýtum okkur það þegar við veiðum þau. Við veiðum þau í gildrur,“ segir Bjarni K. Kristjánsson prófessor við fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum.

Síðasta hornsílaráðstefna var haldin í Japan, fyrir heimsfaraldur, en þetta er í fyrsta sinn sem hún er haldin á Íslandi. Þó að hornsílarannsóknir beinist, samkvæmt orðanna hljóðan, að þessari tilteknu tegund þá geta þær gagnast fleiri lífverum, manninum meðal annars.