Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vilja að 17. júní verði færður beri hann upp á helgi

Mynd: Stefán Ingvarsson / RÚV
Aðfangadagur og gamlársdagur ættu að vera frídagar að fullu og þeir sem vinna þá daga að fá stórhátíðarálag. Þetta er meðal krafna VM - félags vélstjóra og málmtæknimanna. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir kröfur um styttingu vinnuviku, lengingu sumarleyfis og fjölgun frídaga þýða tugi prósenta í launahækkun.  

Eftir mánuð falla flestir kjarasamningar á almennum markaði úr gildi. 

Langflest launafólk eða rúmlega hundrað og tíu þúsund manns er með kjarasamning við Samtök atvinnulífsins. Kjarasamningarnir eru 136 talsins eða 42 prósent allra samninga. Næstflestir semja við sveitarfélögin sem hafa gert 24 prósent samninga. Þá eru 18 prósent samninga við ríkið og sextán prósent við aðra.

Fyrsta nóvember losna um 125 kjarasamningar við SA. Starfsgreinasambandið, án Eflingar og Stéttarfélags Vesturlands, hafa birt Samtökum atvinnulífsins kröfugerð sína, auk VR, Samiðnar, Rafiðnaðarsambandsins, Matvís og VM - félags vélstjóra og málmtæknimanna. Kjaraviðræður við þessi félög eru hafnar. VM fer fram á prósentuhækkun launa en ekki krónutöluhækkun. Formaður félagsins hefur skilning á áhyggjum fólks af efnahagsástandinu.

„Verðbólgan er einn versti óvinur okkar líka. En það er bullandi hagnaður hjá fullt af fyrirtækjum og sá arður á að deilast milli fólks en ekki bara fara í vasa atvinnurekenda,“ segir Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna

VM hefur sett fram kröfu um að rauðir dagar - hátíðisdagar sem lenda á mismunandi vikudögum milli ára verði ávallt færðir á virkan dag og verði því alltaf frídagar. 

„Sautjándi júní gæti orðið að mánudegi ef hann ber upp á helgi,“ segir Guðmundur.

Einnig að aðfangadagur og gamlársdagur verði frídagar allan daginn.  

„Við teljum að þetta séu dagar fjölskyldna. Það er orðið þannig að allir þeir sem eiga nokkurn möguleika að eiga frí þennan dag eru í fríi. Þess viljum við meina að þeir sem þurfa að vinna eiga að fá vel greitt fyrir það og þetta eigi að teljast hátíðisdagar frá morgni til kvölds,“ segir Guðmundur.

„Allt kostar þetta og ég kalla eftir því að verkalýðsfélögin forgangsraði því sem þau setja á oddinn. Þau geta ekki fengið allt sem þau biðja um,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Til viðbótar fara mörg stéttarfélög fram á að vinnuvikan verði stytt í 32 stundir á viku hjá dagvinnufólki auk launahækkana.

„Án þess að úttala sig nákvæmlega um það á þessum tímapunkti þá er mjög auðvelt að telja sig upp í nokkra tugi prósenta í kostnaði atvinnulífsins,“ segir Halldór.