Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Verðum að hafa kjark til að taka á þessum málum“

03.10.2022 - 08:28
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, segist hafa neitað Jóni Baldvini Hannibalssyni, fyrrverandi utanríkisráðherra, um heiðurssæti í þingkosningum 2007 vegna ásakana um kynferðisbrot. Hún þakkar þeim kjarkinn sem stigu fram í síðustu viku og sökuðu Jón Baldvin og Árna Heimi Ingólfsson, fyrrverandi tónlistarstjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands, um að hafa brotið á sér eða öðrum og segir að það verði að hafa kjark til að taka á þessum málum.

Ingibjörg Sólrún lýsir Jóni Baldvin sem rándýri sem velji bráð sína af kostgæfni og vinnur sér inn traust hennar. Þar hafi sendiherrann, ráðherrann og skólameistarinn misbeitt valdi sínu og sótt að ungum stúlkum. „Ég fékk vitneskju um eitt þessara mála árið 2007 þegar ég var formaður Samfylkingarinnar og það varð til þess að ég ræddi í trúnaði við JBH og bað hann að segja sig frá heiðurssæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir þingkosningarnar vorið 2007. Hann varð við þessari ósk minni en í stað þess að láta þar við sitja og sýna svolitla iðrun og hugarangur vegna framferðis síns fór hann rakleiðis í Silfur Egils og vældi yfir því að ég hefði hafnað honum í heiðurssætið á pólitískum forsendum. Þetta gerði hann vitandi að ég gæti aldrei sagt opinberlega hver var hin raunverulega ástæða fyrir því að ég vildi hann ekki í heiðurssætið,“ segir Ingibjörg Sólrún á Facebook. 

Stundin fjallaði fyrir helgi um samskipti Jóns Baldvins, sem þá var 31 árs gamall kennari í Hagaskóla, við fimmtán ára gamla stúlku. Hún lýsti samskiptum við Jón í dagbókum sínum þar sem hann hafi beðið hana að hitta sig eftir skóla, fara með hana í bíltúra og skrifað henni bréf þar sem hann lýsir þrá sinni til hennar. Ingibjörg Sólrún þakkar dóttur konunnar fyrir að birta dagbókarfærslur móður sinnar og segir málið ekki einsdæmi og það verði að horfast í augu við það. „Ég skrifa þetta vegna þess að Jón Baldvin Hannibalsson hefur aldrei viðurkennt misgjörðir sínar og enn láta margir þær sér í léttu rúmi liggja af því þeim finnst JBH hafa lagt svo margt af mörkum í íslenskri pólitík. Það kemur þessu máli hins vegar ekkert við og menn komast aldrei framhjá þeirri staðreynd að þann orðstír sem JBH ávann sér á hinum pólitíska vettvangi hefur hann sjálfur lítilsvirt með því að misbeita því valdi sem honum var falið gagnvart fjölmörgum unglingsstúlkum og konum. Þar er ekki öðrum um að kenna,“ segir Ingibjörg Sólrún.