Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Lula seig fram úr eftir æsispennandi kapphlaup

epa10220550 Supporters of former president and presidential candidate Luiz Inacio Lula da Silva celebrate while the partial results of the Brazilian elections are being announced on Paulista Avenue in Sao Paulo, Brazil, 02 October 2022.  EPA-EFE/Fernando Bizerra
Spár gerðu ráð fyrir að Lula myndi jafnvel fá meirihluta atkvæða í fyrri umferð brasilísku forsetakosninganna. Svo fór þó ekki og því fá kjósendur að velja milli hans og Bolsonaros í seinni umferð kosninganna 30. október. Mynd: EPA-EFE - EFE
Kjósa þarf á milli þeirra Jairs Bolsonaro Brasilíuforseta og Luiz Inácio Lula da Silva fyrrverandi forseta hinn 30. október, þar sem hvorugur þeirra tryggði sér meirihluta atkvæða í fyrri umferð brasilísku forsetakosninganna sem fram fór á sunnudag. Lula var á laugardag spáð 50 eða 51 prósenti atkvæða en Bolsonaro 36 til 37 prósentum en mun mjórra reyndist á mununum þegar talið var upp úr kjörkössunum.

Bolsonaro með forskot samkvæmt fyrstu tölum en Lula seig fram úr

Bolsonaro hafði 4,6 prósentustiga forskot samkvæmt fyrstu tölum, en þær byggðust einkum á úrslitum í dreifbýlli héruðum landsins þar sem forsetinn hefur töluvert meira fylgi en í stórborgum.

Þegar tölur tóku að berast frá borgunum fór að draga saman með þeim og þegar búið var að telja 99,9 prósent atkvæða reyndist Lula hafa fengið rúmlega sex milljónum og yfir fimm prósentustigum fleiri atkvæði en forsetinn; 48,4 prósent á móti 43,2 prósentum.

Kosið milli Lula og Bolsonaros í lok mánaðar

Lula fékk þó ekki helming atkvæða eða meira eins og spáð hafði verið og því verður kosið á milli þeirra Bolsonaros í seinni umferð forsetakosninganna, sem haldin verður 30. október.

Munurinn á fylgi þeirra Lula og Bolsonaro reyndist mun minni en allar skoðanakannanir sem gerðar hafa verið síðustu vikur og mánuði bentu til. Þær sýndu Lula jafnan með öruggt forskot og sem fyrr segir birtust tvær nokkuð samhljóða kannanir á laugardag, þar sem 50 - 51 prósent sögðust ætla að kjósa Lula en 36 - 37 prósent Bolsonaro. 

Fréttin var uppfærð í takt við nýjustu tölur.