Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Líkur á meiri samdrætti í Evrópu og óvissan mikil

03.10.2022 - 10:20
Mynd: RÚV - Þór Ægisson / RÚV
Rauðar tölur í Kauphöllinni hér heima að undanförnu er í takti við það sem gerist á mörkuðum í Evrópu og í Bandaríkjunum. Kórónuveirufaraldurinn hafði ekki afgerandi áhrif á viðskiptaheiminn, öfugt við það sem nú er með stríðinu í Úkraínu. Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur hjá Landsbankanum, segir það að hluta til skýrast af því að í faraldrinum gripu stjórnvöld til viðamikilla aðgerða til að viðhalda hagvexti.

„En nú er kannski að koma á daginn að þessi viðbrögð voru óhófleg. Við erum að glíma við verðbólgu, bæði hér heima og erlendis, sem hefur ekki verið jafn mikið vandamál í 40 ár. Að einhverju leyti þarf að fara að vinda ofan af því og þá þarf að hækka vexti. Það er að hafa svolítið neikvæð áhrif á hlutabréf. Óvissan er mikil,“ sagði Gústaf í Morgunútvarpinu á Rás tvö í morgun.

Hann segir að horfur á hlutabréfamörkuðum séu ekki að batna.

„Það má kannski segja að útlitið sé ekkert alltof bjart. Það er mikil svartsýni núna og það eru ýmsar hagtölur sem benda til þess að botninum sé ekki náð.“

Líkur á efnahagssamdrætti fram á næsta ár

Þá eru líkur á efnahagssamdrætti í Evrópu alveg fram á næsta ár.

„Það eru líkur til þess að það verði. Nú er verið að hækka vexti og draga máttinn svolítið úr hagkerfinu. Verðbólga er mikil, kaupmáttur er að minnka - sérstaklega í Evrópu, og þegar kaupmáttur minnkar þá getur fólk eytt minni pening. Og þegar fólk getur eytt minni pening þá dregst landsframleiðsla saman og við fáum neikvæðan hagvöxt. Þannig þetta lítur allavega ekkert alltof vel út.“

Búin að sjá toppinn á verðbólgunni hér heima

Staðan sé þó ekki eins slæm hér á landi þar sem verðbólga hefur lækkað tvo mánuði í röð.

„Við erum í rauninni búin að sjá toppinn á henni. Svo þetta er bara spurning um það hversu hratt hún mun ganga niður. Öfugt við Evrópu þar sem hún er enn að vaxa og við erum að sjá bara rosalegar verðbólgutölur,“ sagði Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur hjá Landsbankanum, í Morgunútvarpinu á Rás tvö í morgun.