Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hélt upp á afmæli Hitlers að Túngötu 18

03.10.2022 - 11:47
Mynd: Þjóðskjalasafn Íslands / RÚV
Íslensk stjórnvöld afhenda í dag þýskum yfirvöldum skjöl frá ræðismanni Þýskalands sem starfaði á Íslandi í upphafi seinni heimsstyrjaldar. Meðal skjala er kvittun fyrir kaupum á hortensíu, uppáhaldsblómi Adolfs Hitlers, og er hún frá 20. apríl 1940 - sem var afmælisdagur hins illræmda foringja. Með þessu virðist ræðismaður hafa fagnað afmælisdegi Hitlers.

Þegar Bretar hernámu Ísland í maí 1940 þustu þeir rakleiðis að húsakynnum þýska ræðismannsins Werners Gerlach að Túngötu 18 í Reykjavík og þegar þangað kom fundu þeir brunalykt. Var þá Gerlach, eða Geirlákur eins og íslenskir ráðherrar kölluðu hann í háði, að brenna skjöl í baðkari. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra afhendir forseta Sambandsskjalasafns Þýskalands skjöl ræðismannsins í dag. Njörður Sigurðsson aðstoðarþjóðskjalavörður segir viðbúið að Bretar hafi tekið eitthvað af skjölum með sér úr landi. Það sem eftir hafi orðið hér liggi í fimm skjalaöskjum og hafi tekið upp hálfan hillumetra á Þjóðskjalasafninu. 

„Þetta eru í raun og veru hefðbundin skjöl ræðismannsskrifstofu. Þarna er bókhald sem er kannski ekki alltaf mjög merkilegt. En þarna er alla vega eitt mjög merkilegt skjal sem við höfum stundum dregið upp úr bókhaldinu. Og það er kvittun frá 20. apríl 1940 fyrir kaupum á hortensíum. Og af hverju er það mikilvægt? Nú, 20. apríl var afmælisdagur foringjans og uppáhaldsblóm hans var hortensía. Þannig að Werner Gerlach ræðismaður heiðraði sinn foringja á þennan hátt á þessum degi hérna á Íslandi. Svo eru hefðbundin gögn er varða samskipti við íslensk stjórnvöld og samskipti og annað slíkt er varðar Þjóðverja á Íslandi,“ sagði Njörður á Morgunvaktinni á Rás 1.

Er eitthvað þarna sem hafði hernaðarlega þýðingu?

„Ég myndi halda ekki, að það sé ekki í þessum skjölum. Ég hef alla vega ekki orðið var við það. Mín kenning er að það kunni mögulega að liggja í Bretlandi,“ segir Njörður.