Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hannar stafræna tísku til að draga úr sóun hraðtísku

Mynd: Benedikt Nikulás Anes Ketilsson / RÚV

Hannar stafræna tísku til að draga úr sóun hraðtísku

03.10.2022 - 10:33

Höfundar

Hraðtískuiðnaðurinn og ójafnrétti í tæknigeiranum eru meðal viðfangsefna í stafrænum verkum listakonunnar Digital Sigga. Verk hennar eru mitt á milli raunveruleikans og hins stafræna heims, sem eru kannski ekki jafn aðskildir og við höldum.

Sigríður Birna Matthíasdóttir segir að áhugi sinn á stafrænni tísku hafi kviknað eftir að hún lauk námi í fatahönnun við Studio Berçot í París. „Svo fer ég og læri fatahönnun í París og mér var smá brugðið, bæði varðandi hversu hrikalega mikil sóun á sér stað í hönnunarferlinu. Ekki aðeins í framleiðslu og sölu og öllu því, heldur í hönnunarferlinu. Líka hversu ótrúlega eftir á og gamaldags skólinn og rauninni bransinn allur var. Við vorum ekki að nota neina tækni fyrir neitt.” 

Stafræna tísku sem staðgengil hraðtísku  

Tískubransinn samræmdist ekki gildum Sigríðar, svo hún fór í hönnunarnám í Listaháskólanum. Þar vann hún að verkefni þar sem hún skoðaði hegðun áhrifavalda á samfélagsmiðlum. Gagnrýni hennar á neysluhyggju sem fylgir því að kaupa flíkur einungis til að birta mynd á netinu, varð kveikjan að verkefninu Paperdoll. Þar er Sigríður í formi dúkkulísu sem klæðist mismunandi fötum framleiddum af hraðtískufyrirtækjum. 

„Ef við erum að kaupa flíkur einungis til að pósta mynd af þeim, þá getum við bara alveg eins sleppt því og notað stafræna tísku í staðinn. Hver stafræn flík sparar 97% af kolefnissporinu sem venjuleg flík gerir. Það er þó ekki alveg fullkomið því við notum tölvur og allt það - en það er alveg töluvert skárra að gera þetta heldur en að eiga einnota flíkur.” 

Sigríður notar forrit sem heitir CLO 3D til þess að hanna stafrænan fatnað. „Þú getur bara búið til snið frá grunni eða tekið einhver gömul sem þú átt og breytt þeim og hvað sem er. Svo þarftu að klæða avatarinn og sauma saman og hann líkir eftir raunveruleikanum þannig þetta hermir eftir raunveruleikanum. Þannig að þetta er bara hentugt líka ef þú ert að fara framleiða flíkina í raun og veru að stytta ferlið við það að hanna og prófa.”

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Samstarf við fatahönnuði 

Sigríður vinnur nú að verkefni með Sólveigu Dögg Hansdóttur fatahönnuði, sem er í raun stafrænt fatamerki sem ber nafnið Netizens. „Við erum á leiðinni á Dutch design week og við erum bara að prófa að vinna saman í stafrænni tísku, hún er rosalega flottur fatahönnuður en er ekkert mikið inn í neinu svona stafrænu. Í staðinn fyrir að vera með svona „runway show“ þá erum við bara með stuttmynd af flíkunum, bara í einhverjum aðstæðum sem við búum til.” 

Strákaklúbbur í tæknigeiranum 

Nú er Sigríður í tölvunarfræði við Háskóla Íslands. Hún segir nemendahópinn vera fjölbreyttari en áður, þó að ýmsu sé enn ábótavant í jafnréttismálum.  „Það er enn þessi strákaklúbbur-vibe í gangi. Ég veit samt að langflestir vilja breyta því og strákarnir líka. Þeir segja oft, þær sækja ekki um og svona. En vandamálið er að kúltúrinn á vinnusvæðinu eða í náminu er of karllægur og þannig gefast konur oft upp. Það þarf að gefa rými fyrir öll kyn og alla þjóðfélagshópa í raun og veru.” 

Rætt var við Sigríði Birnu Matthíasdóttur í Kastljósi. Hægt er að horfa á allt innslagið í spilaranum efst í færslunni.