Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hælisleitendur frá Venesúela margfalt fleiri en áður

03.10.2022 - 12:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Venesúelamenn eru um helmingur umsækjenda um vernd á Íslandi á þessu ári, að umsækjendum frá Úkraínu undanskildum sem eru fleiri en öll önnur þjóðerni samanlagt. Meira en fjögurhundruð og þrjátíu Venesúelamenn hafa fengið vernd á þessu ári.

Meira en 430 Venesúelamenn hafa fengið vernd á Íslandi á þessu ári. Þeir eru um helmingur hælisleitenda hér á landi, að Úkraínumönnum undanskildum sem eru fleiri en öll önnur þjóðerni samanlagt. Þetta er samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun. 

Hælisleitendum frá Venesúela fjölgar um meira en 200 á milli ára

588 ríkisborgarar Venesúela hafa komið hingað til lands á þessu ári og hafa aldrei verið fleiri. Fyrir fjórum árum voru þeir fimmtán. Í fyrra komu 364 frá Venesúela og voru þá 388 þaðan búsettir hér á landi. Alls hafa 1175 hælisleitendur komið til Íslands á árinu, að Úkraínumönnum undanskildum sem eru um 1700.

Venesúelamenn eru um 70 prósent þeirra hafa fengið veitta vernd, viðbótarvernd eða mannúðarleyfi á fyrstu átta mánuðum ársins. Alls 431. Það fjölgaði mikið í þessum hópi eftir málaferli í sumar þar sem kærunefnd útlendingamála felldi synjun Útlendingastofnunar um vernd úr gildi. 

Venesúelamenn flýja stjórnmálastöðuna í landinu og sömuleiðis bága stöðu mannréttinda og efnahags. Sameinuðu þjóðirnar telja að um 6,8 milljónir hafi flúið landið frá 2015.

Fréttinni hefur verið breytt