Greina gamlar ljósmyndir í kjallara á Dalvík

Mynd: RÚV / Sölvi Andrason

Greina gamlar ljósmyndir í kjallara á Dalvík

03.10.2022 - 13:05

Höfundar

Það er ekki öllum gefið að greina andlit og kennileiti á gömlum ljósmyndum sem margar hafa verið ofan í skúffu árum saman. Það verkefni hefur þó ljósmyndahópur Héraðsskjalasafns Svarfdæla tekið að sér og greinir vikulega nokkra tugi mynda.

Nefna einstaklinga og kennileiti á myndum

Héraðsskjalasafn Svarfdæla, í samstarfi við félag eldri borgara, hefur undanfarin tíu ár unnið að því að greina myndir sem borist hafa safninu í gegn um árin. Verkefni ljósmyndahópsins er að nefna einstaklinga og kennileiti á myndunum og þannig varðveita sögu bæjarfélagsins.

Verða gleggri á myndirnar með árunum

Nokkrum upphafskvenna hópsins þykir þessi vikulega stund ómissandi hluti af lífi þeirra og segja ýmislegt hafa breyst á undanförnum tíu árum. „Við höfum bara orðið gleggri á myndir held ég. Við greindum fimm myndir á fyrsta fundinum okkar en við erum komin í marga tugi, bara sextíu jafnvel,“ segir Hafdís Hafliðadóttir. 

Þannig afkastagetan er orðin meiri?

„Alveg svakaleg, miklu meiri. Það voru svo gamlar myndirnar sem við byrjuðum á, við þekktum svo lítið,“ segja Guðlaug Sigríður Antonsdóttir og Birna Kristjánsdóttir.

Minnið ekki óbrigðult

Þó geti sumar myndir valdið hugarangri þegar ekki næst að tengja nöfn við andlit. „Það hefur komið fyrir, maður fer að grufla og svo allt í einu dettur nafnið á manninum inn, það er aðallega það að ég man ekki nöfnin. Svo dettur það allt í einu kollinn á mér ef ég sé kannski einhvern tengdan honum,“ segir Óskar Pálmason, einn meðlima hópsins.

þannig þetta hefur alveg haldið fyrir þér vöku einhverjar nætur?

„Ja ekki kannski vöku en það liggur við,“ segir hann og hlær.

Ekki útlit fyrir að myndirnar klárist á næstunni

Björk Eldjárn Kristjánsdóttir, skjalavörður safnsins, segir starfið hafa jákvæðar afleiðingar, bæði fyrir starfsemi safnsins og þá einstaklinga sem sækja fundi. Þetta verkefni, sem í upphafi átti bara að vera tilraun, hefur gefist svo vel að nú er búið að greina nokkrar þúsundir mynda. 

Hvenær verða hreinlega bara allar myndir sem þarf að greina búnar?

„Aldrei það er bara þannig. Svo lengi sem við fáum ennþá myndir þá náttúrulega heldur starfið áfram en þetta er alveg gríðarlega mikið magn,“ segir hún.

Tengdar fréttir

Tækni og vísindi

Tæknilæsi eldri borgara: Að reyna, prófa og þora

Dalvíkurbyggð

Hjólavinir hjóla með eldri borgara á Dalvík

Íþróttir

Kópavogur býður eldri borgurum í skipulagt íþróttastarf