Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Góð aðsókn í hvalaskoðun en veðrið afar óhagstætt

03.10.2022 - 14:57
Mynd: RÚV / Ágúst Ólafsson
Mun fleiri ferðamenn fóru í hvalaskoðun á Skjálfandaflóa í sumar en áætlað var. Veðrið var hins vegar afar óhagstætt, norðanbræla og fella þurfti niður fjölda ferða þess vegna.

Enn streyma hvalaskoðunarbátar inn og út úr höfninni á Húsavík. Það er fínasta aðsókn þó komið sé haust. Það ríkti nokkur óvissa þegar siglingarnar hófust í vor en samt von um góða aðsókn.

Meiri aðsókn í sumar en búist var við

Við vorum alveg bjartsýn og gerðum ráð fyrir töluverðum fjölda. Raunin var síðan miklu meira en við þorðum nokkurntíma að vona,“ segir Stefán Jón Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri Norðursiglingar. Daniel Annisius, aðstoðarframkvæmdastjóri Gentle Giants, tekur undir þetta. „Þetta er búið að vera mjög gott sumar hvað aðsókn varðar og og í raun mun meira en við bjuggumst við.“

Afar óhagstætt veður og oft vont í sjóinn

Það hafa verið góðar aðstæður til hvalaskoðunar á Skjálfanda í haust. En þannig var það ekki alltaf í sumar, veðrið var afar óhagstætt, tíð norðanátt og oft vont í sjóinn. „Það kom fyrir að við vorum að missa þrjá, fjóra daga út í röð,“ segir Stefán. „Ætli við höfum ekki misst út eina 10 daga í ágústmánuði.“

Hafa þurft að endurgreiða farmiða

Þá þarf að endurgreiða fjölda farmiða. „Já, að sjálfsögðu er það alltaf. Sérstaklega yfir hásumarið þegar þú ert með marga bókaða þá er eitthvað sem þarf að endurgreiða. En það er bara eitthvað sem er hluti af þessu,“ segir Stefán. Daníel segir að þó margir farþegar nái að bíða í einn eða tvo daga, sé alltaf eitthvað sem þurfi að endurgreiða. „Eðli málsins samkvæmt eru ferðamenn líka með stíf plön og eru kannski á leið á Akureyri og svo áfram þaðan.“

Haustið lítur vel út

Þeir vona báðir að haustblíðan haldi áfram og aðsóknin sömuleiðis. Haustið líti vel út og það sé bókað í ferðir næstu vikurnar. „Þannig að við erum bara bjartsýn og vonum að veðrið verði þá gott við okkur núna það sem eftir lifir tímabilsins,“ segir Stefán.