Ekkert mál að búa í Hrísey og vinna í landi

Mynd: RÚV / RÚV

Ekkert mál að búa í Hrísey og vinna í landi

03.10.2022 - 17:08

Höfundar

„Þetta er allt í hausnum á manni. Það eru milljónir manna út um allan heim sem þurfa að sækja vinnu miklu lengra en við erum að gera. Þetta er ekkert mál,“ segir Ómar Hlynsson íbúi í Hrísey.

Ómar er einn þeirra sem búa úti í Hrísey en vinna í landi. Hann tekur ferjuna Sævar í land á hverjum morgni og keyrir svo til Akureyrar. „Þetta er svona klukkutími í allt og bara slökun. Það er engin traffík eða neitt á leiðinni,“ segir Ómar. 

Siglingin milli lands og eyjar tekur ekki nema um 16 mínútur. Þröstur Jóhannsson, skipstjóri á Sævari, segir að það sé fastur kjarni sem taki ferjuna til vinnu á hverjum morgni. „Það eru oft á milli fimm og tíu manns sem eru að fara í þessa fyrstu ferð og svo koma til baka með ferjunni þeir sem eru að vinna úti í eyju.“ Yfir sumartímann eru farnar 9 ferðir á dag en síðasta ferðin er ekki farin á veturna nema eftir því sé óskað sérstaklega. „Svo erum við alltaf á vakt og klárir að fara ef eitthvað kemur upp á,“ segir Þröstur

Landinn fékk far með Hríseyjarferjunni Sævari á dögunum.