Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Björk - Fossora

Mynd: Viðar Logi / björk

Björk - Fossora

03.10.2022 - 16:15

Höfundar

Tíunda hljómplata tónlistarkonunnar Bjarkar Guðmundsdóttur, Fossora, kom út síðasta föstudag. Andlát móður Bjarkar, Hildar Rúnu Hauksdóttur, varð henni innblástur við gerð plötunnar og sorgin sem því fylgdi. Covid hafði líka sín áhrif á sköpun plötunnar með sínum takmörkunum og kostum en platan er að mestu tekin upp á Íslandi.

Nafnið Fossora er orðaleikur dregin af latneska orðinu yfir digger eða gröfu. Á plötunni fær Björk til liðs við sig bandaríska tónlistarmanninn Serpentwithfeet, börn sín Sindra og Ísidóru, indónesíska dansdúettinn Gabber Modus Operandi og bassa-klarínettu-sextettinn Mumuri.

Fyrsta lagið sem var gefið út af plötunni var Atopos, síðan kom Ovule nokkrum dögum síðar og svo Acestress og Fossora með viku millibili.

Viðtökur við plötunni hafa verið mjög góðar og samkvæmt Metacritic þá er platan með 86/100 þar sem flestir fjölmiðlar gefa fjórar til fimm stjörnur. Um plötuna segir bandaríski miðillinn NPR í dálki sínum New Music Friday frá því í síðustu viku: „Platan samræmist því sem við þekkjum og elskum hana fyrir. Hún leiðir þig á sérstakan, hrjúfan stað sem lætur hugann reika til allra sem hún hefur haft áhrif á með hljóðheimi sínum. Hún er brautryðjandi þegar kemur að því að leiða hlustendur inn í hljóðrænt ævintýr,“ og bætir við: „Platan er opinská en horfir inn á við.“

Plata vikunnar að þessu sinni er ný plata Bjarkar, Fossura. Hún verður spiluð í heild sinni eftir 10 fréttir í kvöld á Rás 2 ásamt kynningum Bjarkar á tilurð laganna.