Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Beit skokkara í lærið

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Lögregla var kölluð til í Laugardalnum þar sem hundur hafði stokkið á skokkara og bitið hann í lærið. Skokkarinn hlaut minni háttar áverka og verður MAST tilkynnt um atvikið. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglan dró blóðsýni úr fimm ökumönnum í gærkvöldi og nótt vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna. 

Sá fyrsti var handtekinn vegna gruns um um akstur stolinnar bifreiðar undir áhrifum vímuefna á fimmta tímanum í gær. Hann var sviptur ökuréttindum og af honum var tekin skýrsla vegna nytjastuldar. Síðan var hann látinn laus úr haldi.

Annar var vistaður í fangageymslu eftir að hafa valdið minniháttar umferðaróhappi á sjöunda tímanum í gær og neitað að blása í áfengismæli. Sá þriðji var handtekinn stuttu fyrir miðnætti grunaður um vörslu vímuefna og akstur undir áhrifum þeirra.  Fjórði var á ótryggðri bifreið og fimmti reyndi að stinga lögreglu af, en hafði ekki erindi sem erfiði.

Þá var ökumaður handtekinn í Kópavogi eftir að hafa keyrt á gröfu. Bíllinn var illa farinn eftir slysið og maðurinn var sendur til aðhlynningar á slysadeild Landspítalans. Síðan var hann vistaður í fangageymslu vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og annarra vímuefna

peturm's picture
Pétur Magnússon
Fréttastofa RÚV